Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu krefst áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir karlmanni á fertugsaldri sem handtekinn var þann 8. október síðastliðinn vegna gruns um að hafa reynt að myrða unnustu sína. Hann hefur verið úrskurðaður þriggja vikna gæsluvarðhald, eða til 8. nóvember í þágu rannsóknar á ætluðu kynferðisbroti, líkamsárás og heimilisofbeldi.

Maðurinn hefur margoft komið við sögu lögreglu og hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot og heimilisofbeldi. Hann er grunaður um grófa líkamsárás, kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi.

Lögreglan fór á vettvang í húsnæði í vesturhluta borgarinnar og fann þar konuna sem var færð alvarlega slösuð á sjúkrahús. Maðurinn fannst eftir leit í íbúð í öðru hverfi borgarinnar og var handtekinn daginn eftir að tilkynnt var um brotið.

Rannsókn málsins hefur miðað vel að sögn lögreglu og er langt komin.

Meint árás átti sér stað í gámum úti á Granda. Um er að ræða húsnæðisúrræði á vegum borgarinnar fyrir langt leidda fíkla.

Maður grunaður um kynferðisbrot í heimahúsi laus úr haldi

Annað kynferðisbrot sem tilkynnt var til lögreglu síðastliðinn mánudag þar sem karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu er enn í rannsókn lögreglu.

Maðurinn sem var úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á ætluðu kynferðisbroti, er laus úr haldi, en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rann út í dag.

Samkvæmt lögreglu miðar rannsókn málsins vel og er langt komin. Búið er að yfirheyra alla hlutaðeigendur, auk þess sem skýrslur voru teknar af fjórum börnum í Barnahúsi.