Mót­mælendur söfnuðust saman um gjör­völl Banda­ríkin í gær, sjöunda daginn í röð, eftir að Geor­ge Floyd lést við hand­töku í Minnea­polis í síðustu viku. Floyd var 46 ára svartur karl­maður og lést eftir að lög­reglu­maður kraup á hálsi hans í rúmar átta mínútur við hand­töku. Floyd bað hann í­trekað að losa takið þar sem hann næði ekki andanum. At­vikið náðist á mynd­band.

Mikil reiði ríkir meðal mót­mælenda vegna dauða Floyds og hafa miklar ó­eirðir orðið í kjöl­far dauða hans. Út­göngu­bann hefur verið sett á í fjölda borga Banda­ríkjanna. Um 4.500 manns hafa verið hand­teknir og fjöldi fólks hefur meiðst. Í það minnsta fimm lög­reglu­menn hafa orðið fyrir byssu­skotum og talið er að sex mót­mælendur hafi látið lífið í ó­eirðunum. Meiri­hluti mót­mælanna hefur þó farið frið­sam­lega fram.

Dauði Floyds hefur vakið reiði um allan heim, sér í lagi í Banda­ríkjunum, en fjöldi svartra Banda­ríkja­manna og -kvenna hefur látist þar af völdum lög­reglunnar í gegnum árin. Þá endur­speglar reiði mót­mælenda einnig margra ára gremju vegna fé­lags- og efna­hags­legrar mis­mununar og kyn­þátta­for­dóma í garð svartra í landinu, ekki síst í Minnea­polis, þar sem Floyd lést.

Upp­haf­leg krafa mót­mælendanna var að Derek Chau­vin, lög­reglu­maðurinn sem kraup á hálsi Floyd, yrði hand­tekinn og á­kærður. Hann var síðan hand­tekinn og á­kærður fyrir morð af þriðju gráðu og mann­dráp á föstu­daginn, en þrátt fyrir hand­tökuna er enn ekkert lát á mót­mælunum, enda nær saga lög­reglu­of­beldis í garð svartra í Banda­ríkjunum mun lengra en að and­láti Floyds og mót­mælendur krefjast nú rétt­lætis og breyttra að­gerða í slíkum málum.

Lög­reglu­menn í Minnea­polis hafa beitt háls­takinu, sem talið er hafa dregið Floyd til dauða, minnst 428 sinnum frá árinu 2012. Þá vekur at­hygli að í tveimur þriðju til­fella var háls­takið notað gegn þel­dökkum ein­stak­lingum í borg þar sem þel­dökkir eru í miklum minni­hluta, eða 19 prósent íbúa.

Sam­staða hefur myndast um heim allan og hafa mót­mælendur til að mynda komið saman í Þýska­landi, Bret­landi, Frakk­landi, Íran og í Sýr­landi. Skipu­lagður sam­stöðu­fundur verður á Austur­velli klukkan 16.30 í dag.

Banda­ríska blaða­konan Errin Haines segir að tíma­setning dauða Floyds og sam­hengið við kóróna­veirufar­aldurinn geti haft mikið að segja um sam­stöðuna sem fylgt hefur í kjöl­farið. „Við þurfum að horfa á kóróna­veiruna og kerfis­bundinn ras­isma, líkt og þetta at­vik, með sömu augum. Við höfum á­kveðið að horfa á veiruna þannig að við séum öll í þessu saman en nú kemur í ljós hvort við getum litið ras­isma­veiruna sömu augum. Sú veira er að breiðast út í miðjum far­aldrinum og það virðist skipta máli,“ segir hún.

Em­bættis­­menn í höfuð­­stöðvum varnar­­mála­ráðu­neytisins í Pentagon eru sagðir hafa á­hyggjur af hegðun og full­yrðingum Donalds Trump Banda­­ríkja­­for­­seta í kjöl­far stjórn­lausra ó­­eirða víðs vegar í Banda­­ríkjunum vegna dauða Floyds. En for­setinn sagði í á­varpi sínu til þjóðarinnar í fyrra­dag að hann myndi senda her­menn til að ná stjórn á mót­mælunum í þeim til­vikum sem ríkis- og borgar­stjórar gætu það ekki. Til þess myndi hann nýta lög frá árinu 1807 sem leyfa for­setanum að senda banda­ríska her­menn til að ná stjórn á ó­reiðum á banda­rísku land­svæði.

CNN hefur það eftir heimildar­­mönnum innan varnar­­mála­ráðu­neytisins að em­bættis­­menn hafi verið ó­­ró­­legir jafn­vel áður en Trump hét af­skiptum hersins. Þeir reyna nú að sann­­færa for­­setann um að á­standið sé ekki komið á það stig að senda þurfi her­­menn á svæðið og það sé ekki gert fyrr en ríkis­­stjórar kalli eftir því.