Í dag er útlit fyrir hvassa norðaustanátt á NV-verðu landinu með snjókomu, en það dregur úr vindi og ofankomu annars staðar. Frost verður 0 til 7 stig.

Síðdegis gengur svo í norðaustan storm. Það verður vaxandi NA-átt, víða 15-25 m/s, hvassast S- og V-til. Það verður skafrenningur um allt land og víða él, en úrkomulítið SV-til. Það verður samfelld úrkoma austast, slydda á láglendi en snjór til fjalla. Það hlánar við SA-ströndina, en annars verður hiti um og undir frostmarki.

Á morgun verður heldur hægari vindur, einkum austantil um kvöldið. Það verður þurrt að kalla um landið SV-vert, rigning austantil, slydda norðaustanlands og snjókoma á Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Hiti verður 0 til 6 stig, mildast SA-lands, en víða vægt frost NV-til.

Appelsínugular og gular viðvaranir

Það má sannarlega segja að það verði lítið sem ekkert ferðaveður á landinu fram á miðvikudag. Gular og appelsínugular viðvaranir verða í gildi um allt land og á norðanverður Vestfjörðum er óvissustig vegna snjóflóðahættu í gildi.

Frá hádegi verða appelsínugular viðvaranir í gildi á öllu vestanverðu landinu, á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum og í dag og á morgun verða gular viðvaranir í gildi á Suðurlandi, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðaustan hvassviðri eða stormur og snjókoma um landið N-vert, slydda eða rigning A-lands, en annars þurrt að kalla. Hiti nálægt frostmarki, en 1 til 5 stig við S- og A-ströndina.

Á miðvikudag:

Norðaustan 10-18 m/s, hvassast NV-til. Snjókoma N-lands, slydda A-lands, en annars úrkomulítið. Vægt frost, en víða frostlaust við ströndina.

Á fimmtudag:

Austlæg eða breytileg átt og víða dálítil úrkoma. Hiti um og undir frostmarki.

Á föstudag:

Vestlæg átt og dálítil él S- og V-til, en úrkomulítið annars. Frost um mest allt land.

Á laugardag:

Norðvestlæg átt með éljum, einkum NA-til. Frost 1 til 9 stig, kaldast inn til landsins.

Á sunnudag:

Útlit fyrir ákveðna sunnanátt með mildu og vætusömu veðri.

Færð og ástand vega

Yfirlit:

Mikil vetrarfærð er um mestallt land. Ekkert ferðaveður verður um allt land eftir hádegi ef veðurspá gengur eftir, vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með færð og veðri áður en lagt er í langferð.

Vestfirðir:

Beðið er með mokstur vegna veðurs á norðanverðum Vestfjörðum. Þæfingur er á vegum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Norðurland:

Þungfært er frá Hofsós í Ketilás en lokað þaðan í Siglufjörð.