„Getur verið að þetta sé enn eitt einkenni þess að stjórnvöld ætli að þvinga orkupakkamálið hér í gegn um þingið án þess að það fá tilhlýðilega skoðun?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi nú síðdegis.

Umræða um útlendinga og lagafrumvarp dómsmálaráðherra um alþjóðlega vernd og brottvísunartilskipun var tekin af dagskrá aðeins klukkutíma eftir að atkvæði voru greidd um dagskrá þingfundar. Því hófst umræða um þriðja orkupakkann fyrr en til stóð.

Þingmenn Miðflokksins gerðu athugsemdir við þetta í umræðum um fundarstjórn forseta, en þegar menn hættu síðast að ræða um orkupakkann voru fimm Miðflokksmenn enn á mælendaskrá. Það var að morgni fimmtudagsins í síðustu viku, en þá höfðu þeir rætt málin alla nóttina.

Búist er við því að málið verði rætt fram á nótt en Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í kvöldfréttum að hann vonaðist til að hægt yrði að greiða atkvæði um málið á morgun.

Þegar þetta er skrifað eru tíu á mælendaskrá. Í pontu stendur fyrrnefndur Sigmundur Davíð.