Fjórir skjálftar yfir þrír að stærð hafa mælst í dag í Vatnafjöllum í grennd við Heklu. Sá stærsti mældist klukkan 13.21 og var hann 3,8 að stærð.

Þetta kemur fram ávef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að skjálftarnir séu hluti af hrinu sem hófst þann 11. nóvember síðastliðinn þegar skjálfti að stærð 5,2 mældist á svæðinu. Hann átti upptök sín í Vatnafjöllum um 7,5 kílómetra suður af Heklu

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hófst smáskjálftahrina um fjóra kílómetra suðvestur af Þrengslum í gær. Stærstu skjálftarnir mældust í nótt, sá fyrri klukkan 01:28 og sá síðari 03:32 en þeir voru báðir 3,3 að stærð.

Í síðustu viku mældust tæplega 730 jarðskjálftar víðsvegar um landið með mælikerfi Veðurstofu Íslands. Það eru talsvert fleiri en í vikunni á undan þegar um 540 skjálftar mældust.