Karlmaður á sjötugsaldri var í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 6. ágúst á grundvelli almannahagsmuna.

Var það gert að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á brunanum sem kviknaði á Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní með þeim afleiðingum að þrír létust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Maðurinn sem um ræðir hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 26. júní vegna gruns um aðild að eldsvoðanum.

Rannsókn málsins miðar vel áfram að sögn lögreglu sem segir ekki hægt að gefa frekari upplýsingar að svo stöddu.

Rök­studdur grunur leikur á að eldurinn sem kom kom upp við Bræðra­borgar­stíg hafi kviknað að mannavöldum.

Í gær var greint frá því að kennslanefnd Ríkislögreglustjóra hafi tekist að bera kennsl á hina látnu. Var um að ræða pólska ríkisborgarar sem störfuðu hér á landi. Einn þeirra sem slasaðist í brunanum er enn á gjörgæslu.

Áður greindi Fréttablaðið frá því að 73 ein­staklingar hafi verið með skráð lög­heimili í húsinu, þar af einn Íslendingur.

Efnt var til samstöðufundar á Austurvelli í kjölfar eldsvoðans og kom fólk saman fyrir framan Bræðraborgarstíg 1 til að minnast þeirra sem misstu lífið í brunanum.