Þrátt fyrir tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum vegna Covid-19 verður áfram grímuskylda í strætisvögnum. Þetta staðfestir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó BS. Farþegar og vagnstjórar þurfa að bera grímu enn sem komið er.

„Við erum nokkuð vongóð um að grímuskyldan verði afnumin í lok þessa mánaðar,“ segir Guðmundur Heiðar.

Börn fædd 2005 og yngri verða áfram und­anþegin grímu­skyldu. Grímu­skyld­an nær einnig til þeirra sem eru fullbólu­sett­ir eða eru með mót­efni.

Líkt og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá eftir ríkisstjórnarfund í morgun munu samkomutakmarkanir miðast við 300 manns frá og með þriðjudeginum 15.júní. Þá verður eins metra nándarregla í gildi á opinberum stöðum. Stefnt er að því að öllum takmörkunum verði aflétt um mánaðarmótin.