Afplánunarfangi í fangelsinu á Hólms­heiði var fluttur á Land­spítalann í byrjun mánaðarins og liggur þar þungt haldinn. Aðstandendur mannsins telja hann ekki hafa fengið læknishjálp eins fljótt og hann þurfti á að halda. Formaður félags fanga vill að málið verði rannsakað.

„Já, með mikilli sorg get ég staðfest að það liggur einstaklingur sem afplánar dóm á gjörgæsludeild. Hann hefur verið í öndunarvél í á aðra viku og ástandið er alvarlegt,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga.

Guðmundur segist ekki geta tjáð sig um hvað nákvæmlega gerðist en að fanginn hafi veikst mikið stuttu eftir að hann kom í fangelsið. Ekki mun þó vera um COVID-19 að ræða.

„Það er alveg ljóst í mínum huga að rannsókn verður að fara fram og við reyndar báðum Fangelsismálastofnun um það strax daginn eftir að þetta mál kom upp,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Aðstandendur mannsins telja að ekki hafi verið brugðist við með réttum hætti og strax kallað eftir lækni þegar maðurinn bað um það.“

Hann segir að á endanum hafi fangavörður á vakt hringt á sjúkrabíl, en þá hafi ástand mannsins verið orðið mjög alvarlegt.

Páll Winkel fangelsis­mála­stjóri sagðist ekki geta tjáð sig um mál­efni ein­stakra fanga þegar Frétta­blaðið hafði sam­band, en sagði hins vegar að Fangelsis­mála­stofnun færi alltaf yfir verk­ferla þegar upp kæmu al­var­leg mál og kannaði hvort bregðast þyrfti við.