Áform Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um lagasetningu til að heimila vörslu takmarkaðs magns ávana- og fíkniefna, hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.Þar segir að með því sé stuðlað að því að taka skref í átt frá refsistefnu í málaflokknum.
Vísað er til viðhorfsbreytingar sem orðið hefur á heimsvísu á undanförnum áratug, samhliða vaxandi efasemdum um gagnsemi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn vímuefnum.
Samráð haft við Pírata
Í greinargerð um áformin er vísað til nýsamþykktra laga um neyslurými, en áformuðu frumvarpi sé meðal annars ætlað að styðja við þá löggjöf, enda talið að hún nái ekki markmiði sínu án afnámi refsingar fyrir vörslu neysluskammta.
Einnig er vísað til frumvarps Pírata sem fellt var á Alþingi síðastliðið vor. Í kjölfarið hafi vinna hafist innan heilbrigðisráðuneytisins með hliðsjón af efni frumvarps Pírata og athugasemdum sem um það bárust við þinglega meðferð. Fram kemur að samráð hafi verið átt við þingmann og fulltrúa Pírata við vinnslu málsins í ráðuneytinu.
Á ekki að vera vandamál lögreglunnar
Hugmyndin er að líta á vanda vímuefnanotenda í íslensku samfélagi sem heilbrigðisvandamála fremur en viðfangsefni lögreglu og refsivörslukerfisins. Skref í þá átt sé að gera vörslu neysluskammta ávana- og fíkniefna heimila og refsilausa, að því er fram kemur í greinargerð.
„Frumvarpið byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar en hugmyndafræðin vísar til stefna, verkefna og verklags sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingu, notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna, án þess að meginmarkmiðið sé að draga úr vímuefnanotkun,“ segir í greinargerðinni.