Útlit er fyrir að Persónuvernd þurfi að segja upp einum starfsmanni á næsta ári á sama tíma og mikið álag kallar á tíu starfsmenn til viðbótar.

Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Fyrirsjáanlegt sé að allt starf stofnunarinnar verði sett úr skorðum ef fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verði samþykkt á Alþingi.

Þurfi tíu starfsmenn til að sinna lágmarksskuldbindingum

Helga greinir frá þessu í ársskýrslu Persónuverndar fyrir árið 2019 og segir að mikið og viðvarandi álag hafi verið á starfsemi stofnunarinnar, sem hafi aukist eftir gildistöku nýrra persónuverndarlaga árið 2018.

Þar segir hún að stofnunin hafi sent bréf til dómsmálaráðuneytisins í janúar síðastliðnum þar sem gerðar hafi verið alvarlegar athugasemdir við raunlækkun á fjárframlögum sem fram hafi komið í fjárlögum fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun í ríkisfjármálum.

Þá hafi aukið fjármagn til Persónuverndar á árunum 2017 til 2019 ekki dugað til að leysa úr þeim auknu verkefnum sem stofnunin þurfi að sinna lögum samkvæmt.

„Í bréfinu var greint frá því að ekki síðar en árið 2021 þyrfti að bæta við að lágmarki 10 starfsmönnum til að Persónuvernd gæti sinnt lágmarksskuldbindingum samkvæmt persónuverndarlögum,“ segir Helga í ársskýrslunni.

Málum fjölgað átján ár í röð

Þar kemur fram að 2.454 mál hafi verið nýskráð hjá Persónuvernd árið 2019 og 1.171 mál verið óafgreidd frá fyrri árum, samanlagt 3.625 mál. Aukning hafi verið í málafjölda hjá stofnuninni átján ár í röð.

„Segja má að málastaða Persónuverndar hafi verið í járnum undanfarin ár, því hvorki hefur náðst að sinna nægilega vel innkomnum erindum né uppsöfnuðum málahala vegna undirmönnunar, sem fylgt hefur rekstri stofnunarinnar allt frá árinu 2012.“

Helga segir að við þessar aðstæður sé stofnuninni ókleift að sinna nægilega frumkvæðisskyldu sinni.

Árið 2019 sé fyrsta heila árið í rekstri Persónuverndar frá því ný persónuverndarlög tóku gildi sumarið 2018 og nú liggi fyrir að breytingarnar hafi ekki bara leitt til tímabundins aukins álags.

Afgreiddu fleiri mál í fyrra

Helga segir að mikil aukning hafi verið í afgreiddum málum hjá Persónuvernd á síðasta ári. Árið 2019 hafi 2.984 mál verið afgreidd samanborið við 1.758 mál árið 2018 og 1.833 árið 2017.

„Tekið skal fram að ein af ástæðum þess að það náðist að ljúka svona mörgum málum á árinu 2019 er sú að Persónuvernd ákvað að ljúka afgreiðslu á léttari málum sem lágu fyrir. Eftir standa því mál sem taka lengri tíma í afgreiðslu.“

Miðað við afgreiðslu mála undanfarin ár megi gera ráð fyrir að það taki tæpt ár að afgreiða þann málahala sem nú liggi.

Um 800 mál eru nú sögð vera opin og óafgreidd hjá Persónuvernd og eru dæmi um að fólk hafi þurft að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir niðurstöðu í sínum málum hjá stofnuninni.

Kallar forstjórinn eftir því að stjórnvöld og Alþingi bregðist við þeirri stöðu.