Oslo Pride hefur aflýst samstöðufundi sem átti að fara fram í kvöld á Ráðhústorginu í Osló eftir að norska lögreglan tilkynnti að hún gæti ekki tryggt öryggi fólks. Samstöðufundurinn átti að fara fram í kvöld í kjölfar skotárásar í Osló síðasta föstudag en tveir létust í árásinni og tuttugu særðust. Skotárásin átti sér stað fyrir utan hinsegin bar í Osló.

Fram kemur á vef NRK og Aftenposten að lögreglan hafi áhyggjur af fleiri hryðjuverkaárásum og því hafi þau beðið um að fundinum, og öðrum álíka viðburðum víða í Noregi, yrði aflýst eða frestað.

Á vef NRK segir að það sé vegna þess að lögreglan hafi áhyggjur af ákveðnum einstaklingum sem gætu tengst árásarmanninum og að lögreglan hafi einnig áhyggjur af því að aðrir gætu tekið sér Matapour til fyrirmyndar og skipulagt álíka árásir á viðburðinum í Osló eða öðrum bæjarfélögum í Noregi.

Á vef Aftenposten er haft eftir lögreglufulltrúan Martin Strand, sem talaði við fjölmiðla seinni partinn, að lögreglan telji mögulegt að árásarmaðurinn hafi ekki verið einn að verki. Þar kemur einnig fram að viðbúnaðarstig vegna yfirvofandi hættu á hryðjuverkum sé enn metið mjög hátt, eða fimm af fimm mögulegum.

Fjögurra vikna gæsluvarðhald

Árásarmaðurinn, Zaniar Matapour, sem skaut tvo til bana fyrir framan London Pub í Osló síðasta föstudagskvöld hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Á norska vefnum NRK kemur fram að hann hafi ekki enn verið yfirheyrður og að sett hafi verið á bréfaskrifta- og heimsóknarbann á hann vegna hættunnar á því að sönnunargögn sem tengist árásinni verði skemmd eða sett í hættu.

Hann hefur verið úrskurðaður í einangrun næstu tvær vikurnar auk þess sem hann má ekki skoða fjölmiðla næstu tvær vikurnar.

Í frétt NRK um málið kemur fram að dómstóll eigi eftir að taka afstöðu til þess hvort að ætlun Matapour hafi verið að fremja hryðjuverk en búið er að kæra hann fyrir hryðjuverk, tvenn manndráp og svo nokkrar tilraunir til manndráps.

Í kjölfar árásarinnar var norsku gleðigöngunni aflýst en hún átti að fara fram um helgina. Á vef Aftenposten er haft eftir konu sem ætlaði á viðburðinn í kvöld að með því að aflýsa hafi vonda fólkið unnið og harmar það að viðburðinum hafi verið aflýst.

Tilkynnt var um það síðdegis að fundinum hefði verið aflýst.
Skjáskot/Facebook