Íslensk flugfélög og ferðaskrifstofur hafa þurft að aflýsa ferðum vegna stöðu faraldursins. Heimsferðir hafa aflýst fjórum ferðum til Malaga og þremur til Alicante í sumar og haust. Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, staðfestir þetta.

Tómas segir hafa borið nokkuð á því að hópar vilji fresta ferðum en segir þó greinilegt að fólk ætli sér að ferðast síðar.

„Það hefur náttúrlega aðeins dregið úr eftirspurninni og svo hefur fólk viljað fresta ferðinni sinni. Þess vegna höfum við brugðið á það ráð að draga aðeins úr framboðinu,“ segir Tómas.

Hann segir að í þeim tilvikum þar sem flug hafa verið felld niður muni farþegum bjóðast full endurgreiðsla en í þeim tilvikum þar sem fólk afbókar flug sem verða farin eða vill breyta ferðinni þá gildi ferðaskilmálar.

Vita hefur einnig þurft að fella niður ferðir og hefur ferðaskrifstofan aflýst fjórum ferðum til Krítar í ágúst og september. Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Vita, staðfestir þetta. Hann segir að breyttar reglur á landamærunum sem kveða á um að allir sem komi til Íslands verði að framvísa neikvæðu PCR prófi hafi haft neikvæð áhrif á bókanir.

„Það hefur náttúrlega haft slæm áhrif og við mátum það þannig að þar sem þetta er stutt „season“ hjá okkur til Krítar að einbeita okkur að Alicante og Tenerife,“ segir Þráinn.

Að sögn Þráins hefur öllum gestum fyrirhugaðra ferða til Krítar verið boðin full endurgreiðsla eða inneign fyrir aðra ferð.