Ferða­fé­lag Ís­lands (FÍ) hefur nú af­lýst öllum sam­eigin­legum ferðum og æfingum undir­hópa sinna eftir að hafa fengið skýrari til­mæli frá al­manna­vörnum um reglu­gerð. Sam­eigin­legar æfingar eða gönguferðir hafa farið fram undan­farnar vikur hjá mörgum undir­hópum fé­lagsins í andstöðu við reglu­ferð heil­brigðis­ráð­herra um sam­komu­tak­markanir.

Fram­kvæmda­stjóri fé­lagsins, Páll Guð­munds­son, segir fé­lagið ekki í­þrótta­fé­lag og að allar þeirra sam­eigin­legar æfingar eða gönguferðir hafi verið utan­dyra. Þau hafi talið að það hefði ekki fallið undir reglu­gerð ráð­herra því þar sé ekki sér­stak­lega talað um úti­vist.

Æfingar fullorðinna ekki heimilar

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, sagði á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í gær að einu undan­þágurnar sem hafi verið veittar vegna í­þrótta­starfs full­orðinna hafi verið tengdar lands­liðum og í sam­tali við Frétta­blaðið í dag sagði hann það alveg skýrt að æfingar full­orðinna væru bannaðar. Hann sagði að ein­hverjir göngu­hópar hafi sótt um undan­þágu frá reglu­gerð en hafi ekki fengið hana og gerði því ráð fyrir að allar slíkar göngur væru ekki heimilar og að þrátt fyrir að æfingar væru 10 manna væru þær ekki heimilar.

Í reglu­gerð ráð­herra segir: „Í­þróttir full­orðinna fæddra 2004 og fyrr, þar með taldar æfingar og keppnir, hvort sem er innan- eða utan­­­dyra, með eða án snertingar, eru ó­heimilar. Ein­stak­lings­bundnar æfingar full­orðinna fæddra 2004 og fyrr án snertingar eru heimilar, svo sem úti­hlaup og sam­bæri­leg hreyfing.“

Frestuðu eða aflýstu ferðum og æfingum í gær

Fram­kvæmda­stjóri FÍ segir í samtali við Fréttablaðið að þau hafi lagt sig fram að fylgja sótt­varna­reglum og að um leið og þau hafi fengið greinar­góðar skýringar frá al­manna­vörnum í gær­morgun varðandi þeirra hóp­æfingar hafi þeim öllum verið af­lýst eða frestað.

„Við höfum lagt okkar fram að fylgja sótt­varna­reglum frá því að CO­VID far­aldurinn skall á og höfum oft gengið lengra í því og af­lýst ferðum og lokað skálum. Við höfum lagt okkar fram að sýna á­byrgð í okkar starfi. Það voru hópar í gangi því það var bara talað um skipu­lagt í­þrótta­starf. Við fengum svör frá al­manna­varna­deildinni að það væri í lagi að fara út að ganga ef fólk þekktist og væri vinir og ef það væru ekki skipu­lagðar göngur á vegum í­þrótta­fé­lags. En nú er búið að kveða skýrt á um það að þau áttu líka við úti­vist,“ segir Páll.

Hann segir að reglunum hafi verið breytt oft og þau hafi reynt að bregðast við í hvert sinn og segir sem dæmi að þegar fjölda­tak­mörkum hafi verið breytt úr 20 í 10 þá hafi þau af­lýst öllum sínum ferðum.

„Svo var ekki slakað á núna í síðustu til­slökunum. Við erum 93 ára gamalt fé­lag og erum úti­vistar­fé­lag og erum á­huga­manna­fé­lag sem stundar göngu­ferðir úti í náttúrunni. Við erum hvergi hjá hinu opin­bera skil­greind sem í­þrótta­fé­lag en í texta reglu­gerðar segir að í­þrótta­æfingar séu ekki heimilar. Það er aldrei talað um úti­vist og við höfðum sam­band við sótt­varna­yfir­völd og al­manna­varna­deildina og fáum í gær­morgun stað­festingu á að það sé einnig átt við göngu­ferðir, úti­vist og þess konar starf­semi í reglu­gerðinni. Strax í gær af­lýstum við eða frestuðum öllum verk­efnum sem við höfum verið með,“ segir Páll.

Engar sameiginlegar skipulagðar gönguferðir fólks sem ekki þekkist eða býr á sama heimili eru leyfðar í dag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gættu að sóttvörnum

Hann segir að þau hafi séð í öllu sínu starfi að frá því að sótt­varna­að­gerðir tóku gildi hafi ekki komið upp smit í fé­laginu.

„Það segir okkur rosa­lega mikið sem þátt­tak­endum í sam­fé­laginu að það er hægt að að­laga sig að bregðast við veirunni. Þetta sýnir okkur að per­sónu­bundnar sótt­varnir eru gríðar­lega mikil­vægar og ef að fólk vandar sig þá skilar það miklum árangri. Það mega tíu manns hittast en svo koma þessar út­skýringar og því miður er það þannig að það hefur verið mis­ræmi á til­mælum, á því sem kemur fram á blaða­manna­fundi og því sem kemur fram í reglu­gerð,“ segir Páll.

Hann segir að vegna þess að ekki hafi verið minnst sér­stak­lega á úti­vist í reglu­gerðinni hafi þau á­kveðið að fara á­fram með sitt hóp­starf. Þau hafi gætt að fjölda­tak­mörkum og öllum sótt­vörnum.

„Það var ekki sam­einast í bíla. Það var á­kveðin hring­ganga þannig fólk væri ekki að mætast og ekki sam­eigin­leg stopp. Þetta hefur gengið vel allan tímann og ekkert smit komið upp. Við viljum sýna á­byrgð og erum að fylgja öllum leið­beiningum. Við fengum þessi skýrari svör og út­skýringar þá hættum við öllu okkar hóp­starfi um leið,“ segir Páll.

Hann vill þó beina því til fólks að það sé mikil­vægt að hugsa um heilsuna og passa að ein­angrast ekki í því ár­ferði sem við erum í núna.

„Við segjum að það að fara út að ganga er það besta sem þú getur gert,“ segir Páll.

Í samtali við stjórnvöld um gönguferðir

Hann segir að þau séu í sam­tali við sótt­varna­yfir­völd um að ef það megi tíu manns koma saman þá ætti að heimila tíu manns að fara út að ganga saman.

„Við fylgjum því sem er á­kveðið og reglunum. Þetta er inn­legg í þetta. Við viljum halda sam­fé­laginu eins eðli­legu og hægt er á meðan við berjumst við veiruna,“ segir Páll.

Hann segir að fé­lagið hafi allt frá því að veiran kom upp fyrst lagt sig fram og sýnt mikla á­byrgð. Þau hafi sem dæmi af­lýst 40 prósent ferða í ágúst þegar til­mæli breyttust.

„Við af­lýstum stórum hluta ferða­á­ætlunarinnar og höfum ekki hikað við að bregðast við. Við erum ekki í okkar starfi peninganna vegna. Okkar mark­mið er að fá fólk til að fara út og fá fólk til að ganga,“ segir Páll að lokum.