Fram kom við yfirheyrslu rannsóknarnefndar vegna aflífunar allra minka í Danmörku að ráðamenn hefðu í raun ákveðið að farga öllum stofninum á 45 mínútum. Þetta kemur fram í frásögn Danmarks Radio af yfirheyrslunum.

Dagurinn í dag er sá fjórði í yfirheyrslunum. „Þrjú korter. Það er sá tími sem það tók leiðtoga ríkisstjórnarinnar að aflífa alla minka í Damörku og þar með í raun að leggja minkaræktunargeiran niður á þriðjudagskvöldi í nóvember í fyrra,“ lýsir DR kjarna þess sem fram kom í dag.

Þetta segir DR hafa verið hægt að lesa út úr smáskilaboðum sem lögð voru fyrir minkanefndina. Samhæfingarnefnd ríkisstjórnainnar hafi fundað klukkan hálftíu þriðjudagskvöldið 3. nóvember. Eins og kunnugt er höfðu komið upp kórónuveirusmit í minkum sem síðan höfðu borist í fólk. Vakti þessi þróun mikinn ugg í Danmörku og öðrum löndum.

Aðeins 44 mínútum eftir að fundurinn hófst sendi Per Okkels, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, smáskilaboð til nokkurra yfirmanna í ráðuneytinu. „Lóga á öllum minkum,“ segir DR að staðið hafi í þessum stuttu og skýru skilaboðum um ákvörðunina sem þá hafði verið tekin. Voru sautján milljón minkar í búum vítt og breitt um Danmörku síðan aflífaðir í mikilli skyndingu.

Rannsóka minnkanefndarinnar á meðal annars að leiða í ljós hvort lög hafi verið brotin með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slá minkastofn landsins hreinlega af.

Segir Danmarks Radio að flýtirinn sé athyglisverður vegna þess að ríkistjórnin hafi tekið aðra ákvörðun en þá sem embættismenn hafi mælt með. „Ákvörðun sem kom bæði embætismönnum í umhverfis- og fæðuvöruráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu á óvart,“ segir Danmarks Radio.

Bændur þurftu að aflífa alla sína minka vegna Covid-19.
Fréttablaðið/Getty images