Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að öllum takmörkunum verði aflétt á sex til átta vikum. Samkvæmt fyrsta stigi áætlunarinnar þá mega 50 koma saman, nándarregla verður einn meter og grímskylda enn við lýði. Sundstaðir og líkamsræktarstöðvar fá að taka á móti 75 prósent leyfilegra gesta.

Íþróttakeppnir verða enn heimilaðar og nú með áhorfendum og svo mega 500 koma saman í hólfi. Krár og skemmtistaðir mega opna á ný og veitingastaðir mega vera opnir til 23 en allir að vera farnir klukkan 24. Breytingarnar taka gildi 29. janúar, eða á miðnætti í kvöld. Þetta kom allt fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu sem lauk fyrir stuttu.

„Við færum ykkur góð tíðindi hér í dag,“ sagði Katrín, forsætisráðherra á blaðamannafundinum þar sem hún ásamt öðrum ráðherrum og þríreykinu kynnti nýja afléttingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Hún sagði ákveðna breytingu hafa verið í vikunni þegar reglum var breytt um sóttkví og að það hafi verið tímamót í faraldrinum og þannig hafi þau fært sig frá aðferðarfræði temprunar og í það að opna samfélagið.

Katrín sagði að nokkrum sinnum hefði hún tilkynnt um afléttingar sem hún hefði síðan þurft að draga til baka. Hún sagði bjart framundan þótt að það væru erfiðar vikur framundan. Hún sagði að í nokkrum skrefum væri markmiðið að aflétta öllum takmörkunum á sex til átta vikum.

Breytingar frá og með 29. janúar:

 • Almennar fjöldatakmarkanir fari úr 10 í 50 manns.
 • Nándarregla fari úr 2 metrum í 1 metra.
 • Óbreytt grímuskylda, sem tekur þó almennt mið af nándarreglu.
 • Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði verði heimilt að hafa opið með 75% afköstum.
 • Íþróttakeppnir verði áfram heimilar með 50 þátttakendum og áhorfendur séu leyfðir á ný.
 • Hámarksfjöldi í verslunum geti mest orðið 500 manns.
 • Skemmtistöðum, krám, spilastöðum og spilakössum verði heimilað að opna á ný.
 • Veitingastöðum, þ.m.t. krám og skemmtistöðum, verði heimilt að hleypa nýjum viðskiptavinum til kl. 23.00 en gestum verði gert að yfirgefa staðina kl. 00.00.
 • Á sitjandi viðburðum verði heimilt að taka á móti allt að 500 gestum í hverju hólfi, viðhalda skuli 1 metra nándarreglu milli óskyldra aðila auk grímuskyldu. Ekki verði þörf á hraðprófum.
 • Í skólum verði óbreyttar takmarkanir, þó þannig að þær verði aðlagaðar framangreindum tilslökunum eftir því sem við á.
 • Reglugerðin gildi í tæpar fjórar vikur til og með 24. febrúar.

Nánar á vef stjórnarráðsins hér.Framlengja viðspyrnustyrki

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fór yfir efnahagsaðgerðir sem eiga að taka við til að bregðast við aðstæðum næstu vikur auk þeirra aðgerða sem hafa verið kynntar á síðustu vikum, sérstaklega fyrir veitingageira og menningarlíf. Auk þess tilkynnti hann um að framlengja eigi viðspyrnustyrki.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, fór yfir fyrsta stig afléttingaráætlunar ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fór yfir efnahagsaðgerðir.
Fréttablaðið/Valli

Alls greindust 1.213 smit innanlands í gær, helmingur var í sóttkví. Alls eru um ellefu þúsund í einangrun á landinu og sex þúsund í sóttkví en það fækkaði verulega í þeim hópi þegar reglur breyttust í vikunni um sóttkví og smitgát. Alls liggja 35 sjúklingar á Landspítalanum. Þrír þeirra eru á gjörgæslu og tveir í öndunarvél.