Hin 40 ára gamla Maeve Fahey Kennedy McKean og átta ára sonur hennar, Gideon Joseph Kennedy McKean, er nú talin látin eftir að kanó-bátur þeirra fannst á hvolfi í Chesapeake-flóa við austurströnd Bandaríkjanna.

Greint er frá því í erlendum fjölmiðlum að verið sé að leita að líkum þeirra og eru þau talin hafa drukknað eftir að óveður feykti bát þeirra úr víkinni út á flóann.

Robert Kennedy var myrtur árið 1968.

Maeve var barnabarn Roberts Kennedy sem var myrtur árið 1968 í miðri kosningabaráttu fyrir forsetakosningar Bandaríkjanna. Robert Kennedy var bróðir Johns F. Kennedy Bandaríkjaforseta sem var einnig skotinn til bana meðan hann sat í embætti forseta.

Þetta er annað barnabarn Roberts Kennedy sem lætur lífið of snemma en Saoirse Kennedy Hill lést á síðasta ári aðeins 22 ára gömul eftir að hún tók inn of stóran skammt af lyfjum.

Röð ótímabærra dauðsfalla hefur fylgt fjölskyldunni og hafa margir haldið því fram að bölvun hvíli á henni; Kennedy-bölvunin.

Chesapeake flói er sögulegur staður þar sem Bandaríkjamenn unnu mikinn sigur í frelsisstríði sínu gegn Bretum með hjálp frá Frökkum.
Mynd/AFP