Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 2020 er afkoma ársins af rekstri utanríkisráðuneytisins jákvæð sem nemur tæpum 1,2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, um utanríkis- og alþjóðamál sem lögð var fram á Alþingi í gær. Áætluð afkoma í árslok er jákvæð um liðlega 700 milljónir og er að mestu um að ræða leiðréttingar á verðlagi og frestun á verkefnum vegna heimsfaraldursins.

Stærsta verkefnið sem borgaraþjónustan stóð frammi fyrir var að aðstoða þúsundir Íslendinga við að komast heim þegar heimsfaraldurinn reið yfir. Einnig var settur aukinn kraftur í aðstoð við íslensk fyrirtæki sem eiga í alþjóðlegum viðskiptum, segir í skýrslunni.

Á meðal þyngri útgjaldaþátta var endurnýjun búnaðar vegna heimavinnu og umfangsmeiri þrif og sótthreinsun húsnæðis og búnaðar. Áætlað er að kostnaður ráðuneytisins vegna fyrstu bylgju kórónaveirufaraldursins sé um 300 milljónir króna.