„Amma og afi hafa hjálpað til og eru með hana á daginn þegar þau geta. Annars er ég með hana yfir daginn, vinn heima og mæti síðan í vinnuna og klára daginn á skrif­stofunni þegar kærastan mín er búin í vinnunni,“ segir Sæ­var Steinn Guð­munds­son, en hann mætti á hústöku­leik­skóla í ráðhúsinu í morgun, á­samt fimm­tán mánaða dóttur sinni, Hrafn­tinnu Rún, og föður sínum, Guð­mundi E. Finns­syni.

Hann segir það ekki á­kjósan­legt að þurfa að fá hjálp frá for­eldrum sínum, sem séu bæði á vinnu­markaðnum.

„Pabbi er til dæmis í vakta­vinnu, þannig að hann er með hana alla frí­daga, og er því í raun aldrei með frí­daga. Mamma er að nýta restina af sumar­frís­dögunum sínum til að brúa bilið. Þetta er alls ekki skemmti­leg staða fyrir okkur, að maður sé upp á þau kominn aftur,“ segir Sæ­var, og bætir við: „auk þess keyrir tengdamamma frá Hellu í bæinn þá daga sem hún getur verið laus frá vinnu til að hjálpa okkur með Hrafntinnu. Það er náttúrulega galið."

Ekki óskastaða að vera hjá dagmömmu

Spurður segir Sæ­var að þó sé að birta til hjá þeim þar sem dóttir hans sé komin með pláss hjá dag­mömmu. Það sé hins vegar ekki óska­staðan, af ýmsum á­stæðum.

„Hjá dag­mömmu er bara opið frá átta til þrjú, sem hentar okkur ekki alveg þar sem það þýðir að við þurfum að minnka við okkur vinnu sem er eigin­lega ekki í boði eins og staðan er núna. Auk þess er mikið dýrara að vera hjá dag­mömmu og miðað við það sem er í gangi í þjóð­fé­laginu þar sem allt er að hækka er þetta erfið staða,“ segir Sæ­var. Þau hafi þó þegið boðið þar sem þau hafi engin önnur úr­ræði.

Sæ­var segir að hann og kærasta hans hafi sent Reykjavíkurborg fjölda raf­pósta undanfarnar vikur til að fá að vita betur hvar á listanum dóttir þeirra sé, eða hvenær þau megi vænta þess að hún komist inn á leikskóla. Svörin séu alltaf þau sömu.

„Það er annað­hvort: „Við svörum ykkur í næsta mánuði“ eða „Það er bara ekkert hægt að gera,““ segir Sæ­var, og bætir við að þetta úr­ræða­leysi sé langt frá því að vera til fyrir­myndar. Þá sérstaklega þegar flestir stjórn­mála­flokkar hafi lofað því fyrir sveita­stjórnar­kosningarnar í vor að setja leik­skóla­málin á oddinn.

„Ég held að þau sjái alveg að vanda­málið er til staðar. Þau vita bara ekkert hvað er hægt að gera í þessu,“ segir Sæ­var.

Tómas segist sjá fram á það að þurfa mögulega að fara í launalaust leyfi frá vinnu í vetur, þar sem hann og kona hans séu ekki enn komin með dagvistun fyrir fimmtán mánaða dóttur þeirra.
Fréttablaðið/Erla María Davíðsdóttir

Veit ekki hvað tekur við þegar fæðingarorlofi lýkur

„Ég trúi því að með því að koma hérna er hún ekki lengur bara tala á blaði. Þau sjá að vanda­málið er raun­veru­legt, í höndunum á okkur,“ segir Tómas Young, faðir Anítu Söru, fimm­tán mánaða, sem er á bið­lista eftir leik­skóla­plássi.

Tómas segir það gríðar­lega mikil­vægt að for­eldrar, sem bíði eftir úr­ræðum í dag­vistunar­málum, sýni borgar­yfir­völdum í verki að þörfin sé mikil. Vanda­málið sé út­breitt og fjöldi for­eldra í þröngri stöðu þegar kemur að dag­vistunar­málum.

„Við erum á bið­lista hjá mörgum dag­for­eldrum eins og staðan er núna. Það voru ein eða tvær sem neituðu að setja okkur á bið­lista. Þær sögðu það væri ekki til neins þar sem bið­listinn væri ein­fald­lega það langur. Engin pláss væru í boði,“ segir Tómas.

Spurður segir Tómas þó stöðuna mögu­lega ívið skárri hjá honum en hjá mörgum öðrum, þar sem vinnu­veitandi hans leyfi honum að vinna heima. Það sé þó ein­göngu tíma­bundið.

„Ég er í fimm­tíu prósent starfi og fimm­tíu prósent fæðingar­or­lofi og þannig verða næstu þrír mánuðir. Frá og með fyrsta desember, þegar or­lofinu lýkur, erum við konan mín ekki með neitt plan. Þá þarf annað okkar mögu­lega að fara í launa­laust leyfi frá vinnu, segir Tómas.