„Ég hef aldrei verið fylgjandi dauða­refsingum því ég veit að dóm­stólar geta gert mis­tök. En í mínum huga hafa þau fyrir­gert rétti sínum til að lifa,“ segir Peter Halcrow, móður­afi hins sex ára gamla Arthurs Labinjo-Hug­hes.

Stjúp­móðir Arthurs, Emma Tustin, var á föstu­dag dæmd í 29 ára fangelsi fyrir að hafa myrt drenginn og þá fékk faðir hans, Thomas Hug­hes, 21 árs fangelsis­dóm. Dómur féll í ensku borginni Coventry á föstu­dag en málið hefur vakið mikla um­ræðu í Bret­landi síðustu daga um of­beldi gegn börnum.

Arthur var beittur pyntingum áður en höfuð­högg dró hann til dauða á heimili hans í Soli­hull þann 16. júní árið 2020. Of­beldið gegn honum hafði staðið yfir um langa hríð og var hann í um­sjón stjúp­móður sinnar, Emmu, þegar hann lést. Emma fékk lífs­tíðar­dóm og þarf hún að sitja inni í að lág­marki 29 ár.

Fyrir dómi kom fram að barna­verndar­yfir­völd heim­sóttu heimili drengsins tveimur mánuðum áður en hann lést. Engar at­huga­semdir voru gerðar þó ljóst mætti vera að drengurinn sætti illri með­ferð.

Sky News hefur eftir Peter að hvorki Emma né Thomas ættu að geta fengið um frjálst höfuð strokið aftur. „Þau ættu aldrei að losna úr fangelsi. Engin refsing er nógu hörð fyrir þau.“