Gísli Guðjónsson vann lokaverkefni sitt í sálfræði um vistheimilið Breiðavík. Árið var 1974 og mjög vel var látið af heimilinu. Gísli vildi sannreyna góðan orðróm en komst að allt annarri niðurstöðu.

Ritgerðarvalið orsakaðist þannig að hann var í sinni þriðju og síðustu verklegu törn í sálfræðinámi í Bristol og valdi Fé­lags­mála­stofnun Reykja­víkur. Það reyndist ör­laga­rík á­kvörðun.

„Þar er þá svo mikið verið að tala um heimili sem heitir Breiða­vík og tekur börn sem hafa lent í vand­ræðum. Þetta sé svo góð stofnun að þeir sem fari þarna lendi aldrei í vand­ræðum aftur, þetta er svona góður staður. Þá vaknar spurning hjá mér. Er hægt að stað­festa að þetta sé svona góður staður eins og af er látið?“ segir Gísli, í Helgarblaði Fréttablaðsins í dag. Árið er 1974 og Gísli hefur gert hina vel þokkuðu Breiða­vík að sínu fyrsta rann­sóknar­verk­efni.

„Þessir 72 strákar í rann­sókninni minni voru flestir með hegðunar­vanda­mál sem erfitt var að ráða við. Sumir þeirra höfðu ekki verið í af­brotum áður en þeir komu í Breiða­vík en gerðust síðan af­brota­menn,“ segir Gísli sem hafði líka reynsluna af á­fanga­heimili í Bristol að byggja á. „Ég vissi að ung­lingar eru ekki annað hvort góðir eða slæmir að upp­lagi og á­hugi vaknaði á hvernig væri hægt að forða því að börn fremdu af­brot með því að bæta stöðu þeirra. Um þetta átti þessi fyrsta rann­sókn mín að vera; um þetta heimili fyrir vestan sem fór svo gott orð af,“ segir hann.

„Niður­staðan var að þetta var al­ger­lega öfugt,“ segir Gísli, en það var rann­sókn hans sem veitti heimilinu náðar­höggið nokkrum árum síðar. Meðal niður­staðna Gísla um Breiða­vík var að um 83 prósent drengja sem þangað höfðu komið áttu eftir að komast í kast við lögin síðar. Þar af höfðu 75 prósent fengið skráningu um hegningar­laga­brot í saka­skrá.

Gísli fékk fyrstu á­gætis­ein­kunn fyrir loka­verk­efnið og tók við sér­stökum verð­launum fyrir frammi­stöðu sína við út­skriftina. Ekki voru þó allir jafn á­nægðir með niður­stöður BS-rit­gerðar hans.

„Niður­stöður mínar komu ekki fram í fjöl­miðlum af því að þessu var haldið ofan í skúffu sem trúnaðar­máli.“

Rit­gerðin var prentuð út á Fé­lags­mála­stofnun Reykja­víkur. „Það voru um tuttugu ein­tök prentuð og þá sást hver niður­staðan var,“ segir Gísli. Þá voru ein­tökin stimpluð „trúnaðar­mál“ á for­síðuna. Sjálfur hafði Gísli fengið þrjú ein­tök áður en stimpillinn fór á loft en brýnt var fyrir honum að fara var­lega með niður­stöðuna, sem hann gerði.

„Ég var þarna í minni fyrstu rann­sókn byrjaður að valda vanda­málum,“ segir Gísli og kímir. „Þetta var hneyksli, að niður­stöðurnar hjá mér voru ekki í sam­ræmi við þá í­mynd sem fólk hafði um staðinn. Ég tel að þær hafi haft á­hrif á að heimilinu var lokað árið 1979. Niður­stöður mínar komu ekki fram í fjöl­miðlum af því að þessu var haldið ofan í skúffu sem trúnaðar­máli.“

Rúmum þremur ára­tugum síðar var Gísli skipaður sér­fræðingur í nefnd á vegum ríkisins sem rann­sakaði að­stæður og illa með­ferð á vist­heimilinu. „Þá var mín gamla skýrsla meðal gagna sem fyrir lágu en það var lítið til af öðrum gögnum. Ég birti bókar­kafla um rann­sóknina 1981 til að aðrir gætu lært af þessu máli en svo lá þetta bara kyrrt í mörg ár,“ segir Gísli.

Gísli er í ítarlegu viðtali í Helgarblaði Fréttablaðsins í dag, þar sem hann fer yfir feril sinn.