For­svars­aðilar hópsins sem halda úti fés­bókar­hópnum „Að­för að heilsu kvenna“ af­hentu ráð­herra í dag undir­skriftalista þar sem þess er krafist að greining sýna vegna skimunar fyrir leg­háls­krabba­meini verði fram­kvæmd á Ís­landi og að öryggi og heilsa kvenna verði tryggð með á­byrgum hætti.

Í Face­book-hópnum eru nú hátt í 13.000 manns en hann var stofnaður fyrir rúmum tveimur vikum.

Í til­kynningu frá hópnum segir að málið hafi verið í mikilli þjóð­fé­lags­um­ræðu undan­farna daga og vikur og að megn ó­á­nægja sé meðal kvenna með þær breytingar sem gerðar voru á fyrir­komu­lagi skimana nú um ára­mótin.

Við ráðuneytið fyrr í dag.
Fréttablaðið/Ernir

Telja að verkefnið hefði mátt leysa innanlands

Hópurinn telur þessar breytingar ekki tryggja mark­mið um öryggi, gæði og mann­virðingu því nú standi konur frammi fyrri því að sýnin sem eru tekin eru send til Dan­merkur til greiningar og að bið­tími eftir niður­stöðum sé allt að fimm mánuðir og bið­tími eftir sýna­töku á heilsu­gæslunni, sem áður fór fram hjá Krabba­meins­fé­laginu, sé of langur.

„Á sama tíma liggja fyrir upp­lýsingar, á­lyktanir lækna­fé­laga, blaða­greinar og yfir­lýsingar m.a. for­svars­manna innan Land­spítalans sem stað­festa að verk­efnið hefði vel mátt leysa hér innan­lands og komast þannig hjá ó­þarfa flækju­stigi. Fyrir er bæði tækja­búnaður og mann­afli í landinu til að tryggja ein­mitt öryggi, gæði og mann­virðingu gagn­vart þeim konum sem bíða oft í kvíða og angist eftir niður­stöðum greininga,“ segir í yfir­lýsingu hópsins.