„Það er skortur að því leyti að ef ég tæki allt árið 2021 þá hefðum við, og mig grunar að það sé sama sagan hjá keppinautum okkar, verið búin að fá fleiri bíla til landsins en við fengum í raun þannig að bílamarkaðurinn er minni fyrir vikið,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, um áhrif Covid á framleiðslu og afhendingartíma hinna ýmsu vara.

Egill segir framleiðendur sem hann eigi í viðskiptum við ekki geta sinnt þeirri eftirspurn sem sé eftir nýjum bílum, það skili sér í lengri biðtíma fyrir viðskiptavini hans.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir ekki stefna í vöruskort hér á landi en að faraldurinn hafi haft áhrif á framleiðslukerfi heimsins. Afhendingartími ýmissa vara hafi dregist. „Það er einfaldlega vegna þess að ýmsir íhlutir, til dæmis í bíla og húsgögn, eru framleiddir á fáum stöðum í heiminum og það þarf ekki meira til en að einni verksmiðju sé lokað vegna Covid til að afhendingartíminn lengist.“

Hann segir framleiðslu- og dreifingarkerfi heimsins enn ekki komin í samt lag eftir faraldurinn og að það sýni sig meðal annars í lengri afhendingartíma. „En það er ekkert sem bendir til vöruskorts á nauðsynjavörum,“ segir Andrés en bendir fólki á að gott geti verið að hefja jólainnkaupin snemma í ár.

Bílaframleiðendur hafa ekki getað sinnt eftirspurn eftir nýjum bílum, sem veldur lengri biðtíma.
Fréttablaðið/Ernir

Hörður Þór Harðarson, eigandi Herrafataverslunar Guðsteins, segir nánast allar vörur sem hann panti fyrir verslunina vera fjórum til sex vikum á eftir áætlun og tekur undir orð Andrésar um að reynst gæti fólki vel að vera snemma á ferðinni í jólainnkaupunum og skipuleggja sig vel.

„Ef fólk vill ná í bestu vörurnar þurfa menn að byrja fyrr,“ segir Hörður. „Það sem við heyrum frá okkar birgjum er að seinni afhending sé vegna efnisskorts, þeir séu ekki að fá efnið til að framleiða vöruna svo þetta er alls ekki gott,“ bætir hann við.

„Vörur sem við erum vön að panta af lager í Bretlandi eru allt í einu ekki til og við þurfum að panta þrjá til fjóra mánuði fram í tímann. Þetta er eins og hjól sem allt í einu snýst ekki í réttan hring og hefur áhrif alls staðar,“ segir Hörður. „Við ætluðum til dæmis að panta pappírspoka fyrir jólin en þeir mega bara selja okkur visst magn,“ segir hann.

Egill segir skort á íhlutum ekki einungis hafa áhrif á afhendingartíma og framboð heldur hafi það einnig áhrif á verð. „Það er meiri eftirspurn eftir bílum en framleiðslugeta heimsins er og þá fáum við hækkun á verði frá okkar birgjum sem fer þá út í vöruverð til viðskiptavina.“