Undir­skrifta­söfnun til stuðnings kröfunni um nýja stjórnar­skrá lýkur á mið­nætti í kvöld en nú þegar hafa rúm­lega 41 þúsund stað­festar undir­skriftir borist að því er kemur fram í til­kynningu um málið. Undir­skriftirnar verða af­hentar for­mönnum stjórn­mála­flokkanna á þingi klukkan 13 á morgun.

„Af­hendingin tekur mið af sótt­varnar­reglum en söng­konan Lay Low mun flytja lag við Að­fara­orð nýju stjórnar­skrárinnar. Af­hendingin er loka­punktur undir­skrifta­söfnunarinnar sem Sam­tök kvenna um nýja stjórnar­skrá stóðu fyrir,“ segir í til­kynningu um málið.

Katrín Odds­dóttir, lög­fræðingur og for­maður Stjórnar­skrár­fé­lagsins, ræddi málið í Silfrinu í gær en þar sagði hún að meiri­hlutinn vilji nýja stjórnar­skrá. Hún benti þar til fjölda undir­skrifta sem höfðu safnast og skoðana­kannana síðustu ár. Það gangi ekki að farin sé önnur leið en þjóðar­at­kvæða­greiðsla kveður á um.

Há­vær um­ræða hefur átt sér stað síðustu mánuði þar sem fjöldi fólks hefur kallað eftir nýrri stjórnar­skrá. At­hygli hefur verið vakin á málinu meðal annars með sam­fé­lags­miðla­her­ferð þar sem fólk leitar að stjórnar­skránni, vegglista­verki með á­letruninni „Hvar er nýja stjórnar­skráin“ við Sjávar­út­vegs­húsið, og gjörning þar sem greinar nýju stjórnar­skráarinnar voru sungnar.

Landsmenn ekki gleymt nýju stjórnarskránni

Undir­skrifta­söfnunin hefur staðið yfir í fjóra mánuði en á morgun verða átta ár frá því þjóðar­at­kvæða­greiðsla fór fram þar sem kosið var um til­lögur að nýrri stjórnar­skrá. Rúm­lega tveir þriðju kjós­enda sam­þykktu að til­lögurnar skyldu verða grund­völlur nýrrar stjórnar­skrár.

Mark­miðið var að safna 25 þúsund undir­skriftum fyrir mið­nætti, þar sem það væri fjöldi undir­skrifta sem sam­kvæmt nýju stjórnar­skránni hefði dugað til að kjós­endur gætu lagt fram frum­varp á Al­þingi. Söfnunin fór langt fram úr vonum en Sam­tök kvenna um nýja stjórnar­skrá segja bar­áttunni ekki vera lokið.

„Það kom í ljós að þrátt fyrir lang­varandi van­rækslu Al­þingis og undar­brögð stjórn­mála­flokka í málinu hafa lands­menn ekki gleymt því að þeir sömdu sér nýja stjórnar­skrá og greiddu um hana at­kvæði þjóðar­at­kvæða­greiðslu,“ segir í til­kynningu frá sam­tökunum sem Katrín og Helga Bald­vins­dóttir Bjargar­dóttir, á­byrgðar­maður undir­skrifta­söfnunarinnar, skrifa undir.

Þá er þeim sem hafa skrifað undir, auk þeirra sem hafa lagt söfnuninni lið með marg­vís­legum hætti, þakkað. „Sam­tök kvenna um nýja stjórnar­skrá mun berjast á­fram við hlið þessara þúsunda þar til ný stjórnar­skrá fólksins hefur verið lög­fest.“

Kæru vinir. Endilega setjið þessa mynd í banner-mynd hjá ykkur svo sem flestir viti af því að í dag er síðasti dagur undirskriftasöfnuninnar. www.nystjornarskra.is

Posted by Stjórnarskrárfélagið -The Icelandic Constitution Society on Monday, October 19, 2020