Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir mikla viðhorfsbreytingu landsmanna gagnvart afglæpavæðingu neysluskammta á skömmum tíma, sýna hversu mikilvæg upplýst og opin umræða um málaflokkinn sé. Halldóra lagði fyrst fram frumvarp um afglæpavæðingu árið 2019.

Í gær greindi Fréttablaðið frá nýrri könnun Félagsvísindastofnunar þar sem kemur fram að 60 prósent styðji nú afglæpavæðingu neysluskammta, miðað við rúmlega 30 prósent í könnunum árin 2015 til 2019. Þá telja flestir nú kynferðisbrot alvarlegustu afbrotin fyrir samfélagið en fíknibrot hafa verið efst áratugum saman.

Halldóra segir að hugsa þurfi kerfið upp á nýtt þegar kemur að því að taka á fíkniefnamálum. „Ég er á þeirri skoðun að það eigi ekki að refsa fólki sem er veikt,“ segir hún. „Burðardýr fíkniefna og smásalar eru oft fólk sem er sjálft í neyslu og við leysum engan vanda, hvorki samfélagslegan né vanda þeirra, með refsingum.“ En eins og Fréttablaðið greindi frá um miðjan apríl sker Ísland sig frá nágrannaþjóðum þegar kemur að refsihörku í fíkniefnamálum og óvenju margir fíknifangar eru hér í varðhaldi.

„En þetta eru líka skref,“ segir Halldóra. „Afglæpavæðing er mikilvægt skref til að viðurkenna að núverandi nálgun hefur ekki virkað. Fólk er ekki að hætta í neyslu af því að hún er ólögleg og refsingar hjálpa því ekki að ná bata.“ Segist hún sannfærð um að þegar árangur afglæpavæðingar komi í ljós verði fleiri skref stigin til þess að minnka refsihörkuna í fíkniefnamálum.