Leik­menn af­ganska ung­linga­lands­liðs kvenna í knatt­spyrnu hafa flúið yfir landa­mæri Afgan­istan til Pakistan. Stúlkurnar hafa verið í felum síðast­liðinn mánuð vegna ótta um of­sóknir Tali­bana.

Full­orðnir leik­menn af­ganska lands­liðsins í knatt­spyrnu flúðu frá Kabúl í síðasta mánuði en að sögn BBC urðu yngri leik­menn liðsins eftir vegna vanda­mála með vega­bréfs­á­ritanir og önnur gögn. 32 leik­menn liðsins og fjöl­skyldur þeirra fengu vega­bréfs­á­ritanir eftir að góð­gerða­sam­tökin Foot­ball for Peace börðust fyrir því að ríkis­stjórn Pakistan myndi taka á móti þeim.

Að sögn opin­berra aðila mun hópurinn, sem telur 115 manns, ferðast frá Pes­hawar til borgarinnar Lahor­e í austur­hluta Pakistan, hvar þau munu dvelja í hús­næði Knatt­spyrnu­sam­bands Pakistan.

Hvattar til að brenna búningana sína

Fjöl­miðlar greindu ný­lega frá því að leik­mennirnir hefðu biðlað til for­sætis­ráð­herra Pakistan, Imran Khan, um að veita þeim hæli í landinu vegna „al­var­legra hótana“ frá Tali­bönum.

Kven­kyns leik­mönnum hafði verið ráð­lagt að eyða myndum af sér á sam­fé­lags­miðlum og brenna búninga sína í kjöl­far þess að Kabúl, höfuð­borg Afgan­istan, féll í hendur Tali­bana fyrir um mánuði síðan.

Í síðustu viku sagði Ahma­dullah Wasiq, yfir­maður menningar­mála Tali­bana, í við­tali að konur ættu ekkert erindi að spila krikket eða aðrar í­þróttir þar sem sést í líkama þeirra.

„Ég tel að konum ætti ekki að vera leyft að spila krikket af því það er ekki nauð­­syn­­legt fyrir konur að spila krikket. Í krikket gætu þær lent í að­­stæðum þar sem and­lit þeirra og líkami eru ekki hulin. Íslam leyfir ekki að konur séu sýndar á þennan hátt,“ sagði Wasiq.

Konum var al­farið bannað að stunda í­þróttir í Afgan­istan á fyrri valda­tíð Tali­bana á árunum 1996-2001.