Hálfs árs uppgjör Reykjavíkurborgar sýnir fram á 7,7 milljarða afgang hjá samstæðu borgarinnar á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er tæplega tveimur milljörðum meira en gert hafði verið ráð fyrir.

Betri rekstrarniðurstöðu má rekja til hærri tekjufærðra matsbreytinga fjárfestingaefna Félagsbústaða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Rekstur borgarinnar skiptist í tvo hluta, A og B. Rekstrarniðurstaða A-hluta, sem telur starfsemi sem að mestum hluta er fjármögnuð með skatttekjum, var jákvæð um 1.653 milljónir sem er 655 milljónum minna en gert var ráð fyrir.

Það skýrist einkum af lægri tekjum af sölu byggingarréttar, lægri skatttekjum og hærri gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga en áætlun gerði ráð fyrir.

Heildareignir A- og B-hluta námu samkvæmt efnahagsreikningi 673 milljörðum króna eftir fyrstu sex mánuði ársins og heildarskuldir samstæðunnar voru 343 milljarðar. Eigið fé var 330 milljarðar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöðuna góða, sér í lagi þegar litið er til þess að merki eru um samdrátt í hagkerfinu. „Árshlutauppgjörið gefur ágætar vísbendingar um framhaldið en við þurfum að halda vel á spöðunum áfram,“ segir Dagur borgarstjóri.