Zaki Anwari, 17 ára fót­bolta­maður, og Fada Mohammad, 24 ára tann­læknir, eru tveir þeirra Af­gana sem létust er þeir féllu af banda­rískri her­flug­vél sem þeir höfðu hangið utan. Sláandi mynd­bönd sem tekin voru á al­þjóða­flug­vellinum í Kabúl sýna 21 manns hanga utan á C-17 Globema­ster flutninga­flug­vél sem er í þann mund af takast á loft frá flug­brautinni.

Í ítar­legri um­fjöllun fjallar The Guar­dian um ör­lög hinna ungu manna sem létust í ringul­reiðinni í kjöl­far valda­töku Tali­bana.

Zaki, sem spilaði með ung­linga­lands­liði Afgan­istan í knatt­spyrnu, fór á­samt eldri bróður sínum á flug­völlinn að morgni mánu­dagsins 16. ágúst. Þeir ætluðu að reyna að komast um borð í neyðar­flug frá Afgan­istan, þrátt fyrir að Zaki ætti ekkert vega­bréf. Rétt fyrir klukkan 11 hringdi Zaki í bróður sinn Ahmad til að segja honum að hann hefði hoppað yfir girðinguna í kringum flug­völlinn.

„Ég er ná­lægt flug­vellinum núna, þeir munu skrá nöfn okkar niður eftir að þeir setja okkur í vélina, og þá mun ég missa síma­sam­bandið. Ég ætla að henda símanum mínum í burtu,“ sagði Zaki við bróður sinn.

Ahmad skipaði Zaki sínum að koma heim þar til hann skellti á hann. Tuttugu mínútum síðar hringdi Zaki í móður þeirra og vildi fá að tala við systur sína. Hann sagði henni að hann teldi sig hafa mögu­leika á því að komast um borð í flug­vélina og bað hana um að biðja fyrir sér.

Móðir þeirra öskraði á Zaki í gegnum símann að koma heim þar sem hann væri ekki með vega­bréf eða nein ferða­gögn.

Nasir Anwari, bróðir Zaki, og litlu frændur Zaki minnast hans.
Fréttablaðið/Getty

Stuttu eftir að flug­vélin tókst á loft fékk systir Zaki hringingu úr síma hans þar sem henni var tjáð að lík hans hefði fundist.

Fjöl­skylda Zaki telur að hann hafi kramist undir vélum flug­vélarinnar við flug­tak eða í lendingar­búnaði vélarinnar er hann dróst aftur inn í hjóla­hólfið.

Þrátt fyrir sorgina reyndir Ahmad að sýna á­kvörðun bróður síns skilning. „Hann sá skelfinguna, hann sá Tali­banana – hver sem er myndi verða hræddur,“ segir hann.

Kvaddi fjöl­skylduna og sagðist vera á leið í vinnuna

Fada Mohammad var ungur tann­læknir sem hafði lengi dreymt um að komast í burtu frá Afgan­istan en hafði hvorki á­ætlun né fjár­magn þar sem hann var fyrir­vinna 13 manna fjöl­skyldu. Faðir hans, Payenda Mohammad, sagði að Fada hafi reynt að skrapa saman peningum til að komast úr landi frá því hann gifti sig í fyrra.

„Fada hafði talað um að vilja ferðast en hlutirnir hér voru mjög fjár­hags­lega erfiðir. Hver sá sem sér á­standið í þessu landi myndi vilja vera annars staðar og Fada var ekkert öðru­vísi.“

Fada Mohammad var 24 ára tannlæknir frá Afganistan.
Mynd/Fjölskylda Fada Mohammad

Hann lagði af stað til vinnu eins og vana­lega að morgni 16. ágúst og hvorki eigin­kona hans né fjöl­skylda höfðu minnstu hug­mynd um að hann væri á leið á flug­völlinn.

„Hann kvaddi okkur rétt eins og á hverjum degi þegar hann lagði af stað til vinnu klukkan 8:30. Hann sagði ekkert um flug­völlinn eða ferða­lag,“ segir faðir hans Payenda.

Eigin­kona Fada varð á­hyggju­full þegar hann hringdi ekki í hana klukkan 10 eins og hann gerði vana­lega til að láta hana vita að hann væri kominn í vinnuna. Klukkan 2 fékk fjöl­skyldan sím­hringingu frá ó­kunnugum manni sem tjáði þeim að lík Fada hefði fundist og hann hefði dottið af flug­vélinni. Payenda hljóp til að sækja lík sonar síns.

Krömdust inni í lendingar­búnaði vélarinnar

Rann­sókn stendur nú yfir á vegum banda­ríska flug­hersins um hvernig þær að­stæður gátu skapast að flug­vélin tókst á loft með fjölda manns hangandi utan á henni. Sam­kvæmt tals­konu flug­hersins, Ann Stefanek, sköpuðust hættu­legar að­stæður þegar ó­breyttir borgarar brutust inn á flug­brautina.

„And­spænis sí­fellt versnandi öryggis­að­stæðum í kringum flug­vélina tók á­höfn C-17 vélarinnar þá á­kvörðun að yfir­gefa flug­völlinn eins fljótt og mögu­legt var,“ segir hún. Amerískar þyrlur flugu á undan vélinni til að greiða leiðina á flug­brautinni fyrir flug­tak.

Opin­ber gögn og mynd­bönd sem tekin voru af at­vikinu benda til þess að flug­maðurinn hafi annað­hvort ekki verið með­vitaður um mennina sem héngu utan á vélinni eða ein­fald­lega ekki viljað hætta við brott­för. Líkams­leifar upp­götvuðust í lendingar­búnaði vélarinnar við lendingu en talið er að ein­hverjir mannanna hafi kramist til dauða er lendingar­búnaðurinn dróst til baka.

„Til við­bótar við mynd­böndin á netinu og í frá­sögnum fjöl­miðla, upp­götvuðust líkams­leifar í hjóla­hólfi C-17 vélarinnar eftir að hún lenti á Al U­deid her­flug­stöðinni í Qu­atar. Flug­vélin er nú í skoðun svo tími gefist til að safna saman líkams­leifunum og rann­saka vélina áður en henni er komið aftur í rétt horf,“ segir Stefanek.

Næstum ó­mögu­legt að bera kennsl á líkin

Yfir­völd í Kabúl halda því þó fram að Banda­ríkja­menn hefðu getað hegðað sér á annan hátt í að­stæðunum. Opin­ber aðili á vegum af­ganska heil­brigðis­ráðu­neytisins telur að senni­lega hafi mennirnir haldið að flug­maðurinn myndi stöðva vélina og flytja þá inn í hana.

Maðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, var fenginn til að bera kennsl á líkin en hann segir að eftir fall af­gönsku ríkis­stjórnarinnar sé nánast ó­mögu­legt að komast að því hversu margir létust í slysinu og bera kennsl á líkin.

„Lík þeirra voru svo illa leikin eftir fallið að það var erfitt að bera kennsl á þau. Það var engin ríkis­stjórn eftir til að rann­saka at­vikið. Ef þú þekktir Tali­banana þá myndir þú skilja af hverju mennirnir gerðu þetta,“ segir hann.