Sala áfengis jókst töluvert í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins og í sumar. Samkvæmt tölum ÁTVR var salan 8,2 prósentum meiri í mars á þessu ári en í fyrra, þá tók salan stökk upp í 31,6 prósent milli ára í apríl. Alls seldust tæplega 2,4 milljónir lítra af áfengi í apríl, samanborið við 1,8 milljónir lítra í sama mánuði í fyrra.Aukningin var 18,5 prósent í maí og 14,8 prósent í júní. Aukningin var 26,6 prósent í júlí, en þær tölur eru ekki samanburðarhæfar þar sem sala verslunarmannahelgarinnar var í júlí í ár en var í ágúst í fyrra.

Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi, segist finna fyrir þessu í störfum sínum. „Fólk fór að vera meira heima í sóttkví, eða að vinna. Þá voru færri hindranir og það fór að drekka meira áfengi. Fólk hefur verið í dagdrykkju jafnvel frá morgni til kvölds og er að koma veikara inn til okkar. Þá er fólk farið að drekka spritt,“ segir Víðir.Spritt er iðulega gert ódrykkjarhæft með vondu bragði eða sápuefnum sem valda ógleði.

Curtis P. Snook, sérfræðingur í klínískum eitrunarfræðum við Landspítalann, segir spritt sem notað sé til að verjast COVID-19 faraldrinum innihalda meira en 80 prósent af etanóli. „Aðalvandamálið er etanólmagnið, það eykur líkurnar á meðvitundarleysi og uppköstum í lungu. Þetta er mjög sterkt áfengi og margir taka ekki eftir því hvað þetta er sterkt,“ segir Curtis.Víðir segir að hópurinn sem hefur tekið upp á því að drekka spritt fái sömu meðferð og aðrir alkóhólistar.

„Í sjálfu sér er meðferðin sú sama, en þar sem þetta fólk er að innbyrða áfengi frá morgni til kvölds þá eru áhrifin á taugakerfið miklu meiri. Fráhvörfin eru líka mun verri og hættulegri,“ segir Víðir.Hann segir framboð fíkniefna nóg hér á landi þrátt fyrir faraldurinn.

„Kannabis er mikið til framleitt hér á landi, líka amfetamín. Það virðist enn vera til kókaín á markaðnum,“ segir Víðir.Vandinn sem er mest vaxandi er þó notkun ópíóða. „Það er ópíóða­faraldur sem geisar. Það er alltaf að fjölga hjá okkur fólki í viðhaldsmeðferð, þar sem sumir eru í meðferð þar sem beitt er skaða­minnkandi meðferð. Þar erum við að reyna að koma í veg fyrir að fólk í neyslu ofskammti sig af öðrum lyfjum. Það eru nú um 190 manns í viðhaldsmeðferð hjá okkur, hluti af þeim er í skaðaminnkandi meðferð.“

Í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins var plássum á Vogi fækkað úr 60 niður í 40, nú eru þau um 50. Í dag bíða um 530 manns eftir að komast inn á Vog og þarf fólk að bíða í 108 daga eftir plássi. Staðan hefur þó verið verri, fyrir rúmu ári voru 730 á biðlista og í byrjun árs var meðalbiðtíminn 120 dagar.