Stefnt er að því að nám í áfengis- og vímuvarnaráðgjöf flytjist yfir á háskólastig.

SÁÁ hefur um langt skeið rekið skóla fyrir áfengisráðgjafa. Nú er unnið að því í samstarfi við Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytið að færa ráðgjöfina yfir á háskólastig. Óljóst er enn hvenær það skref yrði stigið.

Oddur Sigurjónsson, formaður Félags áfengisráðgjafa, segir að SÁÁ hafi staðið fyrir góðu námi. Hann sjái fyrir sér ákveðna framþróun sem gæti aukið vægi námsins og viðurkenningu með því að námið yrði háskólanám.

„Ef við yrðum hluti af háskólasamfélaginu gæfi það færi á auknu samstarfi við aðrar starfsstéttir sem gæti orðið til bóta,“ segir Oddur.

Hann segist einnig sjá fyrir sér að möguleikar myndu aukast á að áfengisráðgjafar starfi víðar, þótt stærstur hluti ráðgjafa starfi hjá SÁÁ.

Þetta kom fram í sjónvarpsþætti um SÁÁ á Hringbraut.