Á stórum skíðasvæðum erlendis þykir áfengisneysla gjarnan sjálfsagður hluti af skíðaferðinni. Aðgengi er auðvelt og þykir sjálfsagt.

Glögg í lok dags eða bjór í hádeginu eru til dæmis hefðir sem eru samofnar matarmenningu í Mið-Evrópu.

Á Íslandi hefur ekki verið hefð fyrir áfengisneyslu samhliða skíðamennsku en þó virðist það vera að breytast með nýrri heimild fyrir áfengissölu í Hlíðarfjalli.

Ástæða til að fara varlega

Niðurstöður rannsókna í Bandaríkjunum, Ástralíu og Sviss gefa þó ástæðu til þess að fara varlega ef blanda á saman skíðaiðkun og áfengisneyslu.

Í fagtímaritinu Forensic Science International, sem kom út í nóvember í fyrra, eru birtar niðurstöður rannsóknar á vegum þriggja sérfræðinga við háskólann í Bern í Sviss. Í rannsókninni er stuðst við gögn sem spanna 18 ára tímabil og aðstæður og orsakir banaslysa í utanbrauta-skíðamennsku.

Rannsóknin náði til 1.060 banaslysa í utanbrauta-skíðamennsku, á tímabilinu 2001-2019 og leiddi í ljós að eiturefnarannsókn var aðeins framkvæmd í 6 prósentum tilfella. Má þar ætla að hættan sé vanmetin og fullnaðargögn til að meta hana liggi ekki fyrir.

Í rannsókninni segir að neysla áfengis sé algeng orsök slysa í jaðaríþróttagreinum og eldri rannsóknir bendi til þess að slys aukist eftir áfengis- eða vímuefnaneyslu. Neysla áfengis geti orsakað verulega skerðingu á hreyfigetu skíðafólks og hugrænni færni og einnig þurfi að taka til greina hættuna sem steðji að þeim sem ekki nota efnin. Þannig sé sala áfengis á svæðinu áhættuþáttur sem snúi að öllum iðkendum.

Rannsóknarhópur frá Berkeley-háskóla í Kaliforníu rannsakaði árið 1998 áhrif timburmanna á slysatíðni í skíðaíþróttum. Niðurstöður bentu til þess að drykkja innan 12 klukkustunda hefði einnig afgerandi áhrif á tíðni slysa vegna áfengisfráhvarfa eða þreytu iðkandans.

Þreyta algengur slysavaldur

Í ástralskri rannsókn frá 2006, frá rannsakendum við NSW-háskólann í Sydney, kom fram að 30 prósent aðspurðra viðurkenndu að nota áfengi og fíkniefni í auknum mæli á skíðasvæðum.

Þar var einnig bent á þreytu sem algengan slysavald. Hluti af rannsókninni var sjálfsmat þátttakenda á áhættunni sem atferlinu fylgdi. Rannsakendur töldu að þar væri á ferðinni fyrsta rannsóknin af sínum toga og bentu rannsakendur á gríðarlega vöntun á fræðslu varðandi notkun vímuefna samhliða skíðaíþróttum.

Þetta rímar við niðurstöður nýlegrar könnunar í Bretlandi á vegum tryggingafélagsins Direct Line, sem árið 2019 tók saman gögn frá 2.000 manns sem höfðu farið í skíðafrí.

Niðurstöðurnar, sem birtust í breska blaðinu The Independent, sýndu afgerandi auknar líkur á slysum eftir áfengisneyslu. Þar sagði að hættan á slysi ykist um 43 prósent eftir notkun áfengis. Þó skal skýrt tekið fram að ekki var um akademíska rannsókn að ræða.

Þar kom fram að fleiri en þúsund Bretar slösuðust á degi hverjum í brekkunum vegna áfengisneyslu samhliða skíðamennsku.

Væri litið til síðustu fimm ára benti könnunin til þess að 3,8 milljónir breskra skíðamanna hefðu lent í slysum í brekkunum sem rekja mætti beint til neyslu áfengis. Þó að flest slysin væru minni háttar, voru 42 prósent þess eðlis að viðkomandi gat ekki skíðað meira restina af ferðinni.

Fréttin hefur verið leiðrétt klukkan 14:11. Fyrst stóð að áfengissalan væri hafin en svo er ekki.