Alls leituðu 245 einstaklingar á bráðamóttöku Landspítala eftir slys á rafmagnshlaupahjólum yfir sumarmánuðina; júní, júlí og ágúst. Það er þó nokkur fjölgun frá sumrinu á undan þegar 149 leituðu til bráðamóttöku.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bráðamóttöku Landspítalans.

Fjöldi slysa hjá 18 ára og eldri jókst um tæplega helming á milli ára en slys á börnum hélst nánast óbreytt. Þá reyndust flestir áverkar ekki alvarlegir en fjórir þurftu bráða innlögn á Landspítala.

Slysin eru algengust að næturlagi um helgar en rúmur helmingur þessara slysa voru frá klukkan ellefu að kvöldi til fimm að morgni.

Hlutfall slysa um helgar tvöfaldaðist þegar árið 2021 er borið saman við fyrra ár.

Um fjörtíu prósent fullorðinna sem leituðu til bráðamóttöku vegna slysa á rafmagnshlaupahjólum síðasta vor höfðu slasast undir áhrifum áfengis.

Í sumar var ekki skráð sérstaklega hvort fólk hefði verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa. Miðað við fjölda slasaðra fullorðinna í kringum miðnætti um helgar í sumar er þó sterkur grunur um að notkun áfengis og annarra vímugjafa valdi talsverðum hluta þessara slysa.

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala, segir brýnt að efla innviði höfuðborgarsvæðisins til að auka öryggi vegfarenda. Mikilvægt sé að auka fræðslu almennings um hættuna á því að nota tækin undir áhrifum vímugjafa. Þá sé líklegt að bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu að næturlagi um helgar geti dregið úr slysatíðni.