Ný afeitrunar­deild fyrir ó­lög­ráða ung­menni var opnuð í gær en deildin til­heyrir fíkni­geð­deild geð­þjónustu Land­spítala og veitir fjöl­skyldu­miðaða þjónustu. Um er að ræða tvö með­ferðar­rými þar sem ung­menni eru lögð inn í einn til þrjá sólar­hringa og eftir það taka við önnur úr­ræði.

Í sam­tali við Frétta­blaðið síðast­liðinn sagði Snæ­rún Ösp Guð­munds­dóttir, hjúkrunar­fræðingur og að­stoðar­deildar­stjóri við deildina að þörfin fyrir deildina væri virki­leg. „Það hefur verið kallað mikið eftir þessu en hingað til hefur ekki verið til neitt svona úr­ræði fyrir börn og ung­menni sem eru með vímu­efna- og geð­rænan vanda,“ sagði Snæ­rún

Unnið hafði verið að þróun deildarinnar frá því snemma á síðasta ári en áður en deildin var opnuð þurftu börn sem þörfnuðust afeitrunar að fara í afeitrun á Stuðlum þar sem ekki er starfandi heil­brigðis­starfs­fólk.

„Ég get ekki lagt nógu mikla á­herslu á það hvað við fögnum því að þessi þjónusta verði til staðar fyrir þessi ung­menni og hversu mikil­vægt það er að það sé eitt­hvað sem tekur við og að allir sinni sínu hlut­verki,“ sagði Maríanna Bern­harðs­dóttir, deildar­stjóri fíkni­geð­deildar Land­spítalans, í sam­tali við Frétta­blaðið þegar til­kynnt var um opnunina.

Vel er hætt að aðbúnaði deildarinnar.
Mynd/Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Náið samstarf við BUGL, barnaverndarstofu og bráðamóttöku

Að því er kemur fram í til­kynningu frá Land­spítala mun þver­fag­legt með­ferðar­teymi sinna ung­mennum og að­stand­endum í sam­vinnu við barna- og ung­linga­geð­deild en vel hefur verið gætt að að­búnaði deildarinnar. Þá er einnig náið sam­starf við barna­verndar­stofu og bráða­mót­töku.

Við opnun deildarinnar fluttu heil­brigðis­ráð­herra og fé­lags- og barna­mála­ráð­herra á­vörp auk Guð­laugar Rakelar Guð­jóns­dóttur, fram­kvæmda­stjóra með­ferðar­sviðs, Nönnu Briem, for­stöðu­manni geð­þjónustu, Önnu Bjarkar Eð­varðs­dóttur, for­manni Hringsins, og Páls Matthías­sonar, for­stjóra Land­spítala.

Nokkrar myndir frá opnuninni má sjá hér fyrir neðan.

Mynd/Þorkell Þorkelsson/Landspítali
Mynd/Þorkell Þorkelsson/Landspítali
Mynd/Þorkell Þorkelsson/Landspítali
Mynd/Þorkell Þorkelsson/Landspítali
Fréttablaðið/AFP