„Við gerðum af­drifa­rík mis­tök með því að fara með hópinn í ís­helli. Það gerði það að verkum að sökum færðar tók ferðin miklu lengri tíma en á­ætlað var. Undir eðli­legum kring­um­stæðum hefði þessi ferð átt að taka klukku­tíma og korter,“ segir Haukur Her­berts­son, rekstrar­stjóri hjá Mounta­ineers of Iceland, í sam­tali við Reykja­vík síð­degis á Bylgjunni í dag. Starfs­fólk fyrir­tækisins harmar at­burðinn og biður alla við­komandi vel­virðingar.

Hann segir að ferðin á Lang­jökul í gær hafi tekið miklu lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir og að ætlunin hafi verið að klára hana áður en ó­veðrið skall á. Af­drifa­rík mis­tök hafi þó verið gerð sem urðu til þess að hópurinn, sem saman­stóð af tíu leið­sögu­mönnum og 39 ferða­mönnum, sat fastur í veðrinu í átta klukku­stundir.

Mis­tökin sem Haukur á við voru þau að stoppa með hópinn í ís­helli. „Til að rekja þetta þá af­lýstum við öllum sleða­ferðum í gær að undan­skilinni þessari,“ sagði hann. „Þetta var raun­veru­lega saman­safn hóps sem var að koma til okkar á breyttum jeppum. Meiningin var að fara áður en þetta veður sem við vissum að var á leiðinni var að skella á.“

„Við fórum í ferðina í mjög góðu veðri. En sökum færðar þá tafðist ferðin mikið, fór líka ör­lítið of seint af stað,“ sagði hann. Þá hafi verið á­kveðið að fara í ís­helli sem er stað­settur í jökul­sporðinum. Færðin að honum var mun erfiðari en gert var ráð fyrir sem tafði hópinn enn frekar. Á leiðinni til baka úr hellinum skall svo stormurinn á.

Eftir nokkurn akstur á vél­sleðunum til baka hafi verið á­kveðið að stoppa leita skjóls við sleðana. Einn leið­sögu­mannanna fór þá að sækja snjó­troðara sem bilaði í tveggja kíló­metra fjar­lægð frá hópnum.

Reyndu aðrar leiðir áður en kallað var á björgunarsveitir

„Við vorum búin að kalla eftir að­stoð frá starfs­fólki á Flúðum. Þegar því gengur erfið­lega að komast að sleða­hópnum þá þurftum við að leita til björgunar­sveita,“ sagði Haukur. Það var þó ekki gert fyrr en klukkan átta um kvöldið og hafa margir furðað sig á því hve seint var leitað til þeirra. Hópurinn lagði af stað í ferðina klukkan tíu mínútur í eitt og náðu björgunar­sveitar­menn ekki til fólksins fyrr en um klukkan eitt um nóttina.

„Það voru kannski önnur mis­tök sem við gerðum; við kölluðum þær svo­lítið seint út. En eins og ég segi þá vorum við þarna með tvær leiðir til að ná til fólksins,“ segir hann og á þá við snjó­troðarann sem átti að bjarga hópnum. Þegar hann bilaði hafi fyrir­tækið ekki séð neinar aðrar lausnir en að kalla á björgunar­sveitir.

„Í fyrsta lagi þá hefði átt að af­lýsa þessari ferð í ís­hellinn. Vitandi hvernig gær­dagurinn gekk þá að sjálf­sögðu hefðum við átt að af­lýsa öllum ferðum þarna á svæðinu,“ hélt Haukur á­fram. „Raun­veru­leg á­stæða þess að við þurftum að leita til við­bragðs­aðila var að þau tæki sem við höfðum til reiðu til að bjarga fólkinu biluðu. Þetta var raun­veru­lega engin önnur lausn á þessum tíma­punkti.“

Þegar björgunar­sveitir komu að hópnum hafði þá verið búið að koma þeim bílum sem hópurinn kom á til fólksins. Það hafði setið inni í þeim í um fjóra klukku­tíma og beðið eftir björgunar­sveitum.

Starfs­fólk Mounta­ineers of Iceland sendi þá frá sér yfir­lýsingu til fjöl­miðla í dag þar sem sagt er að það harmi at­burðinn og biðji alla við­komandi vel­virðingar. Þá er öllum við­bragðs­aðilum þökkuð veitt að­stoð og stuðningur.