Rúna Hauks­dóttir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofnunar, segir sorg­legt að heyra af því að fólk sé að deila fals­fréttum um bólu­setningar en nokkuð hefur borið á flökku­sögum þar sem fólk á að hafa fengið al­var­legar auka­verkanir eftir bólu­setningu.

Ein slík saga kom upp fyrr í mánuðinum á sam­fé­lags­miðlum þar sem því var haldið fram að barns­hafandi kona hafi látist nokkrum klukku­stundum eftir bólu­setningu. Eigin­maður konunnar steig síðar fram og greindi frá því að eigin­kona hans heitinn hafi ekki farið í bólu­setningu áður en hún lést.

„Þetta er bara hluti af þessum fals­fréttum, að fólk sé að miðla ein­hverju sem kemur kannski ekki frá réttum stöðum,“ segir Rúna í sam­tali við Frétta­blaðið um málið. „Það er afar sorg­legt að það sé verið að miðla þessu,“ segir Rúna enn fremur.

Leggja áherslu á að miðla réttum upplýsingum

Lyfja­stofnun fylgist ekki sér­stak­lega með flökku­sögum um auka­verkanir, og vita oftast ekki ef verið er að dreifa þeim, en þau leggja mikla á­herslu á að miðla réttum upp­lýsingum, til að mynda á vef Lyfja­stofnunar, þar sem finna má fjölda til­kynninga um mögu­legar auka­verkanir í kjöl­far bólu­setningar.

„Við reynum að miðla sem mestum upp­lýsingum, við upp­færum til dæmis töfluna um til­kynningar sem við höfum fengið um mögu­legar auka­verkanir á hverjum degi,“ segir Rúna og bætir við að þau vilji hafa sem mestar upp­lýsingar að­gengi­legar. „Þá veit fólk alla vega að þarna eru upp­lýsingar sem má treysta.“

Þá segir Rúna að það sé mjög mikil­vægt að fólk kynni sér bólu­efnin, lesi fylgi­seðlana fyrir bólu­efnin, og afli sér upp­lýsinga. „En það er kannski aðal­at­riðið hvar þú ert að afla þér upp­lýsinganna, og það er líka mikil­vægt að fólk sé ekki að deila ein­hverju sem að það veit ekki hvaðan kemur.“

Óvanaleg framsetning í nýrri auglýsingu

Í heildina hafa 1.385 til­kynningar um mögu­legar auka­verkanir í kjöl­far bólu­setningar borist Lyfja­stofnun, þar af 91 sem eru á­litin al­var­leg. Af þeim al­var­legu til­kynningum vörðuðu 20 and­lát og 23 blóð­tappa, sam­kvæmt svörum Lyfja­stofnunar við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

Í Morgun­blaðinu í morgun birtist aug­lýsing þar sem vakin var at­hygli á fjölda al­var­legra til­kynninga og fólk hvatt til að til­kynna mögu­legar auka­verkanir í kjöl­far bólu­setningar. Aug­lýsingin sem um ræðir er ekki frá Lyfja­stofnun, heldur kostuð af ein­stak­ling, en svipuð aug­lýsing birtist fyrr í mánuðinum og olli miklu upp­námi.

Auglýsingin sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Mynd/Skjáskot

Í aug­lýsingunni í dag er ekki tekið fram að ekki liggi fyrir or­saka­sam­band milli til­kynntra auka­verkana og bólu­setninga. „Það er látið líta út eins og þetta séu þekktar auka­verkanir af bólu­efninu, sem þær eru ekki, og við vísum bara í fylgi­seðlana, en auð­vitað er mikil­vægt að til­kynna öll at­vik sem að koma fram eftir bólu­setningu,“ segir Rúna.

„En þetta er svona ó­vana­leg fram­setning sem við erum að sjá í miðlum upp­lýsinga á Ís­landi og þetta er svo sem alveg nýtt. Við höfum verið frekar lán­söm við Ís­lendingar, að við erum frekar já­kvæð fyrir bólu­setningu og það er mikil eftir­spurn eftir því að fá bólu­efni, og nægi­lega fljótt,“ segir Rúna enn fremur.

Að­spurð um hvort aukning hafi orðið á til­kynningum eftir að fyrri aug­lýsingin birtist þann 13. maí síðast­liðinn segir Rúnu svo hafa verið en vert er að taka fram að dagana þar áður höfðu veru­lega margir farið í bólu­setningu og því ekki ó­við­búið að til­kynningum skyldi fjölga. Hún í­trekar að Lyfja­stofnun vilji að fólk til­kynni allar mögu­legar auka­verkanir en það þurfi að fara rétt að því.

„Það sem okkur fannst mjög vara­samt [eftir að aug­lýsingin birtist] var að við viljum náttúru­lega ekki fá til­kynningar um auka­verkanir í gegnum síma eða tölvu­póst,“ segir Rúna en slíkar til­kynningar þurfa að fara í gegnum vef Lyfja­stofnunar. „Þá koma allar þær upp­lýsingar sem nauð­syn­legar eru til að meta til­kynninguna og þar koma ekki þær upp­lýsingar sem við viljum ekki fá, sem eru til dæmis per­sónu­greinan­legar.“

Fjöldi aukaverkana í samræmi við önnur lönd

Bólu­setningar munu halda á­fram í næstu viku með þeim fjórum bólu­efnum sem Lyfja­stofnun hefur veitt skil­yrt markaðs­leyfi en hingað til hafa tæp­lega 250 þúsund skammtar verið gefnir. Tæp­lega 92 þúsund hafa verið full­bólu­settir og er bólu­setning hafin hjá rúm­lega 79 þúsund ein­stak­lingum til við­bótar.

Mögu­legar auka­verkanir sem til­kynntar hafa verið eru tölu­vert fleiri en með önnur bólu­efni en Rúna tekur fram að það hafi aldrei verið notað svona mikið af bólu­efni fyrir svona stóran fjölda. „Þannig þetta er alveg í sam­ræmi við það sem er í löndunum í kringum okkur, og mögu­lega eitt­hvað minna.“

„Við höfum verið að hvetja til að fá inn til­kynningar um mögu­legar auka­verkanir, það líka breyttist í lyfja­lögunum núna sem tóku gildi 1. janúar, að nú er starfs­fólki skylt að til­kynna mögu­lega auka­verkun, svo­leiðis að það kemur líka til við­bótar,“ segir Rúna.

Upplýsingar um tilkynningar sem varða mögulegar aukaverkanir má finn hér fyrir neðan: