Á­fram skelfur jörð á Reykja­nes­skaga en ekkert lát er á jarð­skjálfta­hrinunni sem hófst á svæðinu síðast­liðinn mið­viku­dag. Þúsundir skjálfta mælast nú á hverjum degi en stærsti skjálftinn í hrinunni var 5,7 að stærð. Reglu­lega mælast skjálftar yfir M4,0 að stærð.

Kristín Jóns­dóttir, hóp­stjóri náttúru­vá­vöktunar hjá Veður­stofu Ís­lands, greinir frá því í sam­tali við Frétta­blaðið að lítið hafi dregið úr virkni á svæðinu og að virknin í nótt hafi verið enn meiri en nóttina þar áður. Stærsti skjálftinn í nótt var 4,7 að stærð en á annan tug skjálfta hafa verið stærri en 3,0.

„Sjálf­virka kerfið hefur mælt rúm­lega þúsund skjálfta núna frá mið­nætti. Virknin er á­fram að mestu bundin við norður­hluta Fagra­dals­fjalls og rétt suð­vestur af Keili, en svo hafa líka verið skjálftar í nótt við Trölla­dyngju,“ segir Kristín í sam­tali við Frétta­blaðið um málið.

Dregur líklega úr virkninni á næstu dögum

Að sögn Kristínar mældust einnig skjálftar við Trölla­dyngju í gær en virknin er nú að mestu við Fagra­dals­fjall og Keili. Enn er fylgst vel með stöðunni en Kristín segist telja það afar ó­lík­legt að skjálfta­hrinan standi yfir í lengri tíma.

„Það er ó­lík­legt að þetta standi yfir í mjög marga daga eða vikur til við­bótar, það er afar ó­lík­legt. Þannig ég held að við þurfum bara að gefa þessu ein­hverja daga í við­bót, það er svona lík­legasta sviðs­myndin,“ segir Kristín en hún segir að það sé einnig hætta á að það komi stærri skjálftar.

„Þessi sviðs­mynd að það komi stærri skjálftar, allt að stærð M6,5, er auð­vitað enn þá inni, en við höfum ekki verið að sjá virknina færast neitt inn á þetta svæði þar sem við vitum að þessir allra stærstu skjálftar verða á Reykja­nes­skaganum,“ segir hún enn fremur og bætir við að engar vísbendingar séu um gosóróa á svæðinu.