Undanfarið hefur starfsfólk bandaríska sendiráðsins í Bogota, höfuðborg Kólumbíu, kvartað yfir sambærilegri vanlíðan og vart hefur orðið á Kúbu og víðar. Málið hefur verið rannsakað árum saman, án árangurs.

Hljóð sem valda sársauka í eyrum, þreyta og svimi, eru meðal einkenna, en veikindin hlutu viðurnefnið Havana-heilkennið, eða UHI, eftir að þeirra varð fyrst vart í bandaríska og kanadíska sendiráðinu í Havana á Kúbu árið 2016.

Síðan þá hafa bandarískir diplómatar um allan heim fundið fyrir einkennum heilkennisins og nú síðast í Kólumbíu.

Forseti Kólumbíu staðfesti við New York Times að málið væri rannsakað í samvinnu við bandarísk stjórnvöld, þau leiði rannsóknina.

Alls hafa um 200 manns látið vita af sambærilegri vanlíðan, sumir hverjir hafi fundið fyrir einkennum svo mánuðum skiptir. Meira en helmingur þeirra eru starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Í sumar greindu bandarískir starfsmenn í Vínarborg, höfuðborg Austurríkis, frá einkennum heilkennisins. Þá er einnig verið að rannsaka sambærilegt mál í Berlín í Þýskalandi.

Ýmsar getgátur hafa verið uppi um orsakir veikindanna, meðal þeirra sem nefndar hafa verið eru einhvers konar örbylgjur sem hafi áhrif á heilastarfsemi.