Tveir skjól­stæðingar á­fanga­heimilisins Vernd greindust með Co­vid um helgina og hafa nú um tuttugu skjól­stæðingar, bæði karlar og konur, verið fluttir á sótt­varna­hús vegna þeirra smita. Þetta stað­festir Þráinn Bj. Farest­veit, fram­kvæmda­stjóri Verndar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það kom upp smit um helgina sem varð til þess að reksturinn breyttist snar­lega, menn voru fluttir af Vernd og inn á sótt­varna­hús,“ segir Þráinn en upp­runa­lega greindist að­eins einn ein­stak­lingur með veiruna. Við fyrri skimun skjól­stæðinga kom síðan í ljós smit hjá öðrum skjól­stæðing.

Úr­ræðinu hefur nú verið lokað tíma­bundið en að sögn Þráins var það ó­um­flýjan­legt til þess að koma í veg fyrir frekari smit. Gert er ráð fyrir að þeir sem eru á sótt­varna­húsi fari í seinni skimun í kringum næstu helgi. Starfs­menn hafa einnig verið sendir í sótt­kví vegna smitanna og er beðið eftir seinni skimun hjá þeim sömu­leiðis.

Hann segir við­búið í ljósi stöðu far­aldursins innan­lands að smit gæti komið upp á heimilinu líkt og annars staðar og að mikil lukka sé að smit hafi ekki komið þar upp áður. „Menn eru auð­vitað að vinna úti í alls kyns úr­ræðum í tengingu við sam­fé­lagið, eins og allir aðrir, en sem betur fer er þetta í fyrsta sinn sem smit kemur upp.“