Áshildur Linnet, verkefnisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða kross Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að til standi að veita íbúum á Ásbrú áfallahjálp á morgun eftir að annar maðurinn á stuttum tíma reyndi að svipta sig lífi. 

„Svona viðburðir geta vakið upp endurupplifanir af fyrri áföllum og við munum fara með okkar teymi á morgun til að styðja við þá sem urðu vitni að þessu og þarna búa,“ segir Áshildur í samtali við Fréttablaðið í kvöld. 

Greint var frá því fyrr í kvöld að flóttamaður sem dvalið hefur undanfarið á Ásbrú í Reykjanesbæ hafi reynt í dag að svipta sig lífi. Samkvæmt því sem má lesa á Facebook-síðu flóttafólks á Íslandi, Refugees in Iceland, kom lögreglan í búðirnar eftir að tilkynnt var um tilraun hans og í stað þess að aðstoða hann handtók lögreglan manninn. Lögreglan vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði svara um atvikið. 

Sjá einnig: Önnur tilraun til sjálfsvígs á Ásbrú: „Þurfum hjálp“

Ekki er langt síðan annar maður reyndi að svipta sig lífi á Ásbrú. Áshildur segir að það sé þekkt að slíkir atburðir geti í einstaka tilfellum haft svokölluð „smitáhrif“. 

„Ef að ástandið er slæmt getur það leitt til þess að fleiri gera eitthvað. Það er ástæðan fyrir því að við erum að fara þarna á morgun. Af því að þetta getur vakið upp spurningar um eigin stöðu, fyrri áföll og slíkt. Það getur haft neikvæð áhrif á aðra,“ segir Áshildur. 

Áshildur segir að starf Rauða krossins miði ávallt að því að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. „Það sem maður vill alltaf gera er að reyna að koma í veg fyrir að vonleysið nái tökum á þeim sem eru í erfiðri stöðu af því að einhver annar gerir eitthvað. Þess vegna er svo mikilvægt að styðja við þá sem að búa þarna og verða vitni að atburðum. Fólk þarf að fá handleiðslu í gegnum þá,“ segir Áshildur. 

Mikilvægt að takast á við rót vandans

Hún segir að áfallateymi Rauða krossins fari upp á Ásbrú á morgun og þar verði staðan nánar metin um framhaldið. Í teyminu eru sálfræðingar. Hún segir að Útlendingastofnun hafi haft samband við þau um leið og ljóst var að annar maður á svo stuttum tíma hefði reynt að svipta sig lífi.

„Til að kanna hvort við gætum hjálpað með stuðning við íbúana,“ segir Áshildur. 

Hún tekur þó fram að það sé mikilvægt að takast á við rót vandans. Andlega líðan flóttafólks sem hingað leitar til að fá vernd. 

„Það er það sem að Rauði krossinn er að kalla eftir, einhvers konar langtímaúrræði. Að aðgengi sé almennt bætt svo við séum ekki alltaf að slökkva elda. Þannig að við vinnum að einhverjum forvörnum og grípum fyrr inn í, þannig við lendum ekki á þessum stað,“ segir Áshildur að lokum.