Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, fagnar því að heimila eigi rafbyssur enda ætti slíkt að gera handtökur auðveldari.
Fjölnir segir það koma á óvart hve mikil tregða er til dæmis meðal ráðamanna og almennings að viðurkenna að samfélag okkar hefur tekið breytingum. Nefnir hann fréttir um vopnaða einstaklinga, framleiðslu á fíkniefnum, alvarlegar líkamsárásir og áform um hryðjuverk. „Þetta er oft sá veruleiki sem blasir við lögreglunni,“ segir hann í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Greint var frá því á dögunum að Jón Gunnarsson hefði ákveðið að hefja vinnu sem miðar að því að heimila lögreglu að nota rafbyssur. Sagði Jón við það tilefni að mikilvægt væri að efla lögregluna til að hún gæti tryggt öryggi borgara landsins.
Fjölnir tekur undir þetta og bendir á að harkan í undirheimunum sé að aukast og þá verði að hafa í huga að lögregla er í dag skipuð fremur ungu fólki með takmarkaða reynslu. „Meðalaldur þeirra sem eru í almennu löggæslunni á höfuðborgarsvæðinu í dag er 27 ár og tími í starfi er að jafnaði þrjú ár. Af þessu hef ég áhyggjur.
Hann bendir jafnframt á að rannsóknir og reynsla, til dæmis frá Bretlandi, bendi til að rafbyssur hafi fælingarmátt. Í átta af hverjum tíu tilvikum dugi orð lögreglumanns um að vopnið sé innan seilingar til að viðkomandi gefist upp.
„Ef rafvarnarvopn geta auðveldað að stöðva fólk sem er hættulegt er til mikils unnið,“ segir hann meðal annars við Morgunblaðið í dag.