Nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð segist ekki geta kært sig um að þurfa mæta gerendum kynferðisofbeldis á göngum skólans, vera með þeim í verkefnum og sjá þá lifa lífi sínu í engri skömm.

Vakin var athygli á málinu í færslu á Twitter í gær.

Ekki var unnt að fá samband við aðal skólastjórnendur þar sem þeir voru að funda samkvæmt svörum skólans.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu skólastjórnendur funda með nemendum skólans klukkan 11 vegna málsins og hefur Fréttablaðið óskað eftir viðbrögðum skólans.

Með færslunni eru myndir af skilaboðum sem hanga á veggjum skólans en þar er meðal annars spurt, „Af hverju er ég að labba á sömu göngum og nauðgarar?“

Kallað er eftir því að skólastjórnendur geri eitthvað í málunum eða í hið minnsta trúa að þetta setji nemendur í skólanum í hættu.

„Gerið eitthvað for fucks sake ætla ekki að vera í sama skóla og strákur sem er kærður um að hafa nauðgað litlu frænku sinni,“ segir að lokum.

Í ágúst fordæmdi nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands dræm viðbrögð skólastjórnenda vegna meints kynferðisbrots innan veggja skólans.

Nemandinn vakti athygli á málinu á Twitter og skapaðist mikil umræða í kjölfarið. Gagnrýnin snéri einna helst að því að meintur gerandi fengi að mæta áfram í skólann á meðan málið væri til rannsóknar.

Í tölvupósti sem skólastjóri sendi á nemendur kom fram að lögreglan rannsakaði kynferðisbrot sem hafi átt sér stað inni á einu af klósettum skólans.

Bæði brotaþoli og meintur gerandi eru nemendur í skólanum og undir lögaldri en skólayfirvöld hafa verið í samskiptum við heimili beggja.

„Báðir aðilar eru nemendur í skólanum, undir lögaldri. Það hefur í för með sér að þau eiga bæði rétt á að mæta í skólann eftir helgina. Það er ekki búið að dæma í málinu og því er gerandi saklaus þar til sekt er sönnuð,“ skrifaði Olga Lísa meðal annars í tölvupósti sínum.