Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að færa hættustig á landamærum vegna yfirálags niður á óvissustig.
Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra kemur fram að þann 8. mars hafi verið virkjuð viðbragðsáætlun á hættustigi vegna yfirálags á landamærum vegna einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Það gerðist í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu þann 24. febrúar.
Þar kemur einnig fram að nú hafi móttökukerfið fyrir einstaklinga verið eflt á öllum stigum, með samhentu átaki, og að nú sé fyrir séð að efld geta kerfisins muni höndla vel þann fjölda sem hingað sækir. Vegna þess hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að færa viðbúnaðarstig niður á óvissustig af hættustigi.
Samkvæmt síðustu stöðuskýrslu ríkislögreglustjóra hafa nú tæplega 1.500 einstaklingar sótt um vernd á landinu frá áramótum, þar af eru 975 frá Úkraínu og um 300 frá Venesúela en umsækjendur um alþjóðlega vernd frá áramótum skiptust á alls 36 ríkisföng.