Karl Gústaf Stefánsson fæddist í Winnipeg í Kanada árið 1890. Þremur árum fyrr höfðu foreldrar hans, Stefán Þórðarson og Sigríður Þórarinsdóttir, rifið upp rætur sínar í Biskupstungum og haldið vestur um haf í leit að betra lífi ásamt syni sínum Jóni. Það líf fundu þau og ekki síst vegna þess að í Kanada eignuðust þau þrjá syni til viðbótar, Joseph, Karl og Stephen. Ytra tóku þau upp ættarnafnið Thorson og var Karl litli aldrei kallaður annað en Charlie.

Mælti aldrei stakt orð á ensku


Hagur fjölskyldunnar vænkaðist ytra enda var öflugt fólk þar á ferð. Stefan, faðir Charlie, fótaði sig vel í samfélaginu ytra og varð um tíma bæjarstjóri í Gimli í Manitoba. Móðir hans, Sigríður, sem var skarpgreind en nokkuð sérvitur ákvað þó að halda fast í íslenska siði og venjur og hermt er að hún hafi aldrei mælt stakt orð á enska tungu. Hún lagði ríka áherslu á að kynna íslenskan menningararf fyrir sonum sínum, sérstaklega Íslendingasögurnar. Það kunnu þeir vel að meta.

Joseph var frábær námsmaður og nýtti þá hæfileika sína til þess að fara í háskóla og varð hann síðar þekktur lögmaður ytra. Hann varð þingmaður í Kanada og um tíma þótti hann líklegur kandídat í embætti forsætisráðherra landsins meðal flokksbræðra. Segja má að Charlie hafi fallið í skuggann af eldri bróður sínum sem hann unni þó mjög.

Svarti sauður fjölskyldunnar

Hann hafði engan áhuga á bókum né hafði hann þolinmæði fyrir yfirboði kennara. Við þá átti hann í stöðugum útistöðum og árekstrum enda hætti hann námi ungur. Það átti eftir að há honum alla tíð, óþol fyrir því að lúta valdi annarra, og ef honum mislíkaði eitthvað þá gekk hann á dyr í fússi. Sagði Charlie sjálfur að víkingaeðlinu væri um að kenna.

Í augum fjölskylduföðurins var Charlie því svarti sauðurinn í fjölskyldunni. Af honum gengu ævintýralegar sögur í Íslendingasamfélaginu ytra enda bendir flest til þess að hann hafi verið glaðlyndur, stríðinn og uppátækjasamur. Þá var hann sagður drykkfelldur, gefinn fyrir konur, fjárhættuspil og lífsins lystisemdir.

Charlie hafði augljóslega listræna hæfileika en þá var ekki útlit fyrir að sérstök framtíð væri í því. Hann vann margs konar störf en hafði einhverjar tekjur af því að teikna skopmyndir í fjölmörg dagblöð sem gefin voru út fyrir íslenskumælandi fólk ytra.

Charlie_sjalfsmynd.PNG

Sjálfsmynd listamannsins Charlie Thorson

Hörmulegt fráfall ástvina

Þegar Charlie var 24 ára gamall, árið 1914, festi hann ráð sitt. Þá giftist hann fyrri eiginkonu sinni, Rannveigu „Rönku“ Swanson, en tveimur mánuðum áður hafði sonur þeirra, Charlie yngri, litið dagsins ljós. Faðir Charlie, Stefan borgarstjóri, hafði ekki tekið annað í mál en að turtildúfurnar gengju í hjónaband þegar ljóst var að von væri á barnabarni. Ranka var dóttir Friðriks Sveinssonar, sem ytra gekk undir nafninu Fred Swanson. Hann var bróðir rithöfundarins Jóns Sveinssonar, Nonna. Friðrik reyndist Charlie vel og var eins konar lærifaðir hans í listinni og hvatti hann áfram á þeim vettvangi.


Árið 1916 reyndist afar afdrifaríkt ár í lífi Charlie. Bræður hans, Joseph og Stephen, höfðu gengið í herinn til þess að berjast í fyrri heimsstyrjöldinni og Stephen átti ekki afturkvæmt. Hann féll í hinni blóðugu orrustu við Somme í Frakklandi um haustið og voru hinstu orð hans þau að biðja fyrir kveðju til Charlie bróður síns. Enn seig á ógæfuhliðina þegar Ranka veiktist af berklum og dró sjúkdómurinn hana til dauða. Illu heilli smitaðist sonur þeirra af barnaveiki og nokkrum mánuðum síðar fylgdi litli drengurinn í fótspor móður sinnar.


Eðlilega var fráfall þessara ástvina listamanninum mikið áfall og næstu ár flakkaði hann eins og umrenningur um Kanada, heltekinn af sorg.

Árið 1922 giftist Charlie seinni eiginkonu sinni, Ödu Teslock. Þau eignuðust son ári síðar sem einnig var nefndur Charlie. Drengurinn litli lifði þó aðeins í þrjá daga. Hjónin eignuðust annan son, Stephen, árið 1925 sem blessunarlega lifði af og komst til manns. Hann varð virtur læknir í Bresku-Kólumbíu og á mestan heiðurinn af því að halda utan um verk föður síns og halda þar með minningu hans á lofti.

Hjónaband Charlie og Ödu var stormasamt og entist aðeins í nokkur ár. Þau skildu að borði og sæng árið 1928 og skilnaðurinn gekk formlega í gegn árið 1931. Enn á ný var líf Charlie í uppnámi og óvíst hvað tæki við.

800px-Charles_Gustav_Thorson.jpg

Það skiptust á skin og skúrir í ævi Charlie Thorson

Íslensk fyrirmynd Mjallhvítar


Á þessum árum vann hann fyrir sér með því að teikna myndir af margs konar vörum í vinsælan vörulista fyrir póstverslunina Eatons í Winnipeg. Hann vandi komur sínar á Weevil-kaffihúsið í Winnipeg sem var eins konar hjarta í félagslífi Vestur-Íslendinga þar um slóðir.

Þar eyddi Charlie drjúgum tíma og var einn vinsælasti gesturinn. Hann drakk stíft en sagði líflegar sögur sem heilluðu nærstadda og skemmti ungum sem öldnum með fyndnum en ekki síður fallegum teikningum. Afleiðingin af veru hans á kaffihúsinu varð goðsögnin um íslenskan uppruna Mjallhvítar sem enn er talað um meðal Vestur-Íslendinga. Þar starfaði nefnilega ung stúlka, Kristín Sölvadóttir, sem hafði flutt tímabundið til frænku sinnar í Kanada frá Íslandi, meðal annars til þess að læra ensku.

Kristín Sölvadóttir.jpg

Kristín Sölvadóttir

Charlie heillaðist af stúlkunni þó að á þeim væri mikill aldursmunur, hann rúmlega fertugur og hún rétt skriðin yfir tvítugt. Með þeim tókust góð kynni og svo fór að Charlie bað um hönd Kristínar sumarið 1934. Hún játaðist honum en þegar áformin um brúðkaupið voru í bígerð snerist henni hugur og upp úr sambandinu slitnaði. Segir sagan að fljóðið fagra frá Íslandi hafi veitt Charlie innblástur að því sem síðar varð.

Árið 1935, þá 45 ára að aldri, urðu mikil tímamót hjá Charlie. Teiknimyndir voru að ryðja sér til rúms á hvíta tjaldinu um það leyti þó að flestar væru þær í formi stuttmynda. Mikill uppgangur var í iðnaðinum og var leitað að hæfileikafólki um gjörvalla Norður-Ameríku til þess að flytja til Los Angeles og taka þátt í ævintýrinu.

Mjallhvít.jpg

Mynd sem Charlie teiknaði og færði Kristínu að gjöf

Fékk vinnu hjá Disney


Sveimhuginn Teiknimynda-Kalli pakkaði því í töskur, hélt suður á bóginn og réð sig til spennandi kvikmyndastúdíós sem var í eigu ungra bræðra, Roy og Walt Disney.

Ein af mikilvægustu heimildunum um líf og starf Charlie Thorson byggist á bókinni Cartoon Charlie eftir kvikmyndafræðinginn Eugene Waltz. Bókin kom út 1998 og vakti mikla athygli í Kanada enda lá mikil rannsóknarvinna að baki henni. Hróður bókarinnar barst til Íslands og var talsvert fjallað um hana í íslenskum fjölmiðlum rétt fyrir aldamótin. Vonir stóðu til að bókin yrði þýdd yfir á íslensku sem því miður varð aldrei en Waltz heimsótti landið og veitti fjölmiðlum viðtöl auk þess að halda fyrirlestur á Akureyri um viðfangsefni bókarinnar.

Í bókinni leggur Waltz drög að kenningu sinni um að Charlie hafi verið gríðarlega áhrifamikill þegar teiknimyndir voru í fyrsta skipti að verða að kvikmyndum í fullri lengd. Menn þurftu að búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ganga inn í vellaunað starf hjá Disney á þessum kreppuárum.

1940 Popeye model sheet.jpg

Módelteikning af Stjána Bláa eftir Charlie Thorson


Charlie kom inn í Disney-kvikmyndaverið og varð strax virtur meðal samstarfsmanna sinn. Þar spiluðu augljósir hæfileikar hans inn í en ekki síður sú staðreynd að Charlie var eldri og reynslumeiri en flestir samstarfsmenn hans. Waltz hefur bent á að á þessum árum hafi ofuráherslan verið á krúttlega karaktera. Enginn hafi verið betri en Charlie í að skapa slíka karaktera og þá sérstaklega með stór hlýleg augu sem bræddu áhorfendur. Að auki var hann frábær sögumaður og var hann því hvalreki fyrir Disney-kvikmyndaverið.

Hjá Disney starfaði hann við að hanna karaktera fyrir myndirnar en síðan tóku teiknarar og leikstjóri við keflinu. Það kann að skýra að einhverju leyti þá staðreynd að um langt skeið var þátttaka Charlie í verkefnunum gleymd og grafin.

Charlie vann í tæp þrjú ár hjá Disney að undirbúningi kvikmyndarinnar um Mjallhvíti og dvergana sjö, fyrstu teiknimyndar fyrirtækisins í fullri lengd. Sennilega hafa það verið ævintýralegir tímar. Á einum stað í bók Waltz er sagt frá því þegar Walt kíkir inn á skrifstofu Charlie og kynnir hann fyrir tveimur félögum sínum, Charlie Chaplin og H. G. Wells. Það hefði eflaust verið áhugavert að hlera hvað fór á milli með Disney, Chaplin, Wells og Kalla úr Biskupstungunum!

Reisti Walt Disney níðstöng


En ógæfa Charlie var sú að hann átti erfitt með að lúta stjórn annarra og skömmu áður en kvikmyndin um Mjallhvíti kláraðist rauk hann út í fússi frá Disney. Segir sagan að það hafi meðal annars verið vegna þess að allar teikningar voru merktar Disney en ekki einstökum teiknurum. Þegar teiknimyndin kom loks út sló hún öll aðsóknarmet og lagði í raun grunninn að því stórveldi sem Disney hefur verið síðan.

Þrátt fyrir að hafa unnið hörðum höndum að myndinni var Charlie hvergi getið þegar myndin var sýnd á hvíta tjaldinu. Það særði hann djúpu sári. Eins og áður segir þótti Mjallhvít á hvíta tjaldinu sláandi lík myndum af Kristínu Sölvadóttur sem Charlie teiknaði á sínum tíma. Hundruð teiknara komu að þróun myndarinnar og því er fulldjarft að segja að Charlie hafi verið höfundur persónanna en áhrif hans voru eflaust mikil. Þá eru til skissur eftir Charlie af sex af þeim sjö dvergum sem vinguðust við Mjallhvíti.

Í bókinni Dagstund á Fort Garry rifjar Haraldur Bessason, fyrrverandi háskólarektor, upp kynni sín af Josep Thorson, bróður Charlie. Þar kemur fram að þegar upp úr sauð milli Charlie og Walt Disney hafi Íslendingurinn brugðist við í anda Íslendingasagnanna, sem hann dáði svo mjög, og reist Disney níðstöng með viðeigandi kveðskap áföstum í miðri Hollywood. Disney tók það óstinnt upp og þurfti að skilja hann og Charlie að síðar um daginn.

Alls starfaði Charlie í tíu ár í kringum teiknimyndageirann, frá 1935-1945. Títtnefnt óþol hans fyrir yfirboði annarra sem og flökkueðlið gerði það að verkum að hann flakkaði ört á milli framleiðslufyrirtækja og oftar en ekki fyrir feita launatékka. Starfaði hann meðal annars á næstu árum fyrir Harman-Ising, MGM og síðan Warner Bros. Þaðan fór hann og starfaði hjá Fleischer-Brothers, Terrytoons, Columbia og George Pal.

Þetta flakk Charlie milli staða er ekki síst ástæðan fyrir því að hann var svo áhrifamikill að mati Walz. Hann bar þekkingu og kunnáttu milli myndveranna og vegna reynslunnar og hæfileikanna var á hann hlustað.

Kanínan hans Bugs


Hjá Warner Bros bjó Charlie til sinn þekktasta karakter, kanínuna Bugs Bunny eða Kalla kanínu, sem nánast hvert mannsbarn þekkir enn þann dag í dag. Nafnið var tilkomið af því að yfirmaður Charlie, Ben Hardaway, var kallaður Bugs. Hann fól Charlie það verkefni að búa til spennandi karakter í kanínulíki sem Íslendingurinn innti samviskusamlega af hendi. Eftir að hafa teiknað upp tillögu sína lagði Charlie myndina á skrifborð Hardaway og merki hana „Bugs Bunny“. Þannig festist nafnið við hina kjaftforu en krúttlegu kanínu.

Bugs.PNG

Krúttleg dýr voru sérgrein Charlie


En það var líka önnur ástæða fyrir því að Charlie var ráðinn til Warner-bræðra. Þar var honum falið að kenna ungum leikstjóra handbragðið við gerð teiknimynda, persónusköpun og söguþráð. Þessi ungi maður var Chuck Jones sem er nærri jafn þekktur og Walt Disney fyrir framlag sitt til teiknimyndanna. Það er þó til marks um hversu erfitt það var að fá viðurkenningu fyrir verk sín í teiknimyndabransanum á þessum árum að Jones minntist aldrei á Charlie sem sérstakan áhrifavald og gerði lítið úr þessum fyrstu árum sínum hjá Warner Bros þegar hann var að læra fagið. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið.


Myndver Fleischer-bræðra var í Miami og á þann sólríka stað hélt Charlie nokkru síðar. Þar átti hann þátt í að endurhanna karakterinn Popeye, eða Stjána bláa, auk þess sem hann kom að sköpun Steinaldarmannanna í The Flint­stones þó að frægðarsól þeirra hafi ekki tekist á loft fyrr en síðar í höndum William Hannah og Josep Barbera.

Hér hvílir víkingur


Þegar kvikmyndaárum Charlie lauk fluttist hann fljótlega aftur til Winnipeg og tók upp fyrri iðju við auglýsingagerð. Þar skapaði hann tvo karaktera sem eru sem greyptir í þjóðarsál Kanadabúa þó að Íslendingar kannist lítt við þá.

Annars vegar er það björninn Punkinhead sem Charlie teiknaði fyrir vörulista Eatons. Björninn sló í gegn í Kanada og með hann í forgrunni voru framleiddar auglýsingar, lög og teiknimyndir auk þess sem hann birtist á margs konar varningi. Í markaðslegum tilgangi var ákveðið að tengja björninn jólunum og því var framleidd ný bók um björninn um hver jól næsta áratuginn. Sú framleiðsla hætti þegar Charlie lenti í fyllerísrifrildi við yfirmann Eatons og hætti hjá fyrirtækinu í fússi.

Punkinhead.jpeg

Sorgmæddi björninn sló í gegn í Kanada

Hinn karakterinn var krúttlegi fíllinn Elmer sem Charlie teiknaði í sjálfboðavinnu fyrir lögregluyfirvöld í Toronto. Elmer átti að kenna börnum umferðarreglurnar og hann gerði gott betur en það, því hann vann hug og hjörtu barna um allt Kanada og sinnir hlutverki sínu enn þann dag í dag.

Þegar Charlie var kominn á eftirlaunaaldur flutti hann til Van­couver í Bresku-Kólumbíu til þess að vera nær syni sínum, Stephen, og fjölskyldu hans. Hann lést þar í borg árið 1967.

Það er vel við hæfi að eftir róstursama en ævintýralega ævi standi á legsteini hans: „Hér hvílir víkingur.“