Ör­lögin ollu því að leik­stjórarnir Andri Snær Magna­son og Anní Ólafs­dóttir pökkuðu skyndi­lega í töskur sínar og skunduðu í kvik­mynda­gerð til Nepal. „Þetta ævin­týri kom mjög bratt upp,“ segir Andri Snær kíminn, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það var bein­línis þannig að Högni hringdi í mig og spurði hvað ég væri að gera næstu helgi og hvort ég væri til í að koma með honum til Nepal.“ Svipað var uppi á teningnum hjá Anní og var það eins­kær heppni sem réði því að þau væru hvorug bókuð í verk­efnum um helgina.

„Við höfðum aldrei hist að neinu viti og runnum alveg blint í sjóinn,“ segir Anní. „Eftir á að hyggja kom mér ekki á ó­vart að þetta hafi at­vikast á þennan hátt. Þetta var bara þannig verk­efni.“

Andri Snær Magna­son og Anní Ólafs­dóttir leikstýrðu kvikmyndinni Þriðji Póllinn.
Mynd/Aðsend

Tón­leika­upp­taka varð að kvik­mynd

Sam­eigin­legt mark­mið þeirra var að taka upp tón­leika Högna Egils­sonar sem átti að spila í Kat­hmandu, höfuð­stað Nepal. Tón­leikarnir voru skipu­lagðir af Önnu Töru Edwards, sem bú­sett er í Nepal, og ætlaði sér að efna til vitundar­vakningar um geð­sjúk­dóma þar í landi.

Þegar á hólminn var komið varð föru­neyti Högna fljótt ljóst að þarna væri á ferðinni ein­stök saga sem færi langt fram úr upp­runa­legu mark­miði ferðarinnar. „Það sem átti að verða venju­leg tón­leika­upp­taka vatt upp á sig og breyttist fljót­lega í eitt­hvað miklu stærra og stór­brotnara en að sækja tón­leika,“ segir Andri.

Af­rakstur ferða­lagsins varð að lokum að heimildar­myndinni Þriðji Póllinn sem skyggnist inn í hugar­heima Högna og Önnu Töru sem bæði glíma við geð­hvarfa­sýki. „Þau þekktust lítið áður en ferlið hófst en á milli þeirra myndaðist ein­stakt vina­sam­band sem varð að rauða þræðinum í myndinni,“ segir Anní.

Anní brá sér í fjölbreytt verkefni og tók meðal annars upp efni aftan á mótorhjóli.
Mynd/Aðsend

Sam­hljómur milli innra og ytra lands­lags

„Þetta endaði sem mjög sér­stök ytri og innri ferða­saga þar sem þau leiða okkur í gegnum hvað það þýðir að vera með geð­hvörf og að upp­lifa meiri hæðir og lægðir en aðrir,“ segir Andri. Sögur þeirra beggja lýsa bæði al­var­leika sjúk­dómsins og hvers­dags­legum sigrum, og veita um­fram allt von.

Sér­stak­lega við­eig­andi er að sögu­svið myndarinnar sé sett í landi þar sem eru fleiri hæðir og lægðir er að finna en gengur og gerist í heiminum, frá toppi E­verest niður í botn frum­skógarins. „Lands­lagið endur­speglar þennan innri veru­leika á ein­stakan hátt og gerir frá­sögnina draum­kenndari og að sumu leyti að­gengi­legri.“

Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson opnaði sig um eigin geðhvarfasýki fyrir nokkrum árum.
Mynd/Aðsend

Frum­skógar­kona í skugga geð­sjúk­dóma

Anna Tara, fíla­prinsessa Ís­lands, á sér ein­staka sögu. „Faðir hennar var vinur kóngsins í Nepal og tók þátt í að breyta veiði­lendum konungsins í þjóð­garð þar sem hún ólst upp innan um fíla, nas­hyrninga og krókódíla,“ segir Andri. Þess má geta að í tólf ára af­mælis­gjöf fékk hún fíl.

,,Hún ólst upp innan um fíla, nas­hyrninga og krókódíla,“ segir Andri.

Upp úr tví­tugu veiktist Anna Tara af geð­hvörfum, eftir að hafa misst móður sína úr sama sjúk­dómi. Hún lifði í skugga veikindanna um ára­bil áður en hún sá ljósið. „Þegar Högni stígur fram á Ís­landi og talar opin­ber­lega um geð­hvörf á­kvað hún að feta sömu leið, skora skömmina á hólm og efna til geð­heilsu­vakningar í Nepal,“ segir Andri og dá­samar fiðrilda­á­hrifin sem felast í þessari at­burða­rás.

Ágóð tón­leikanna var til þess að opnuð var hjálpar­lína fyrir fólk í sjálfs­vígs­hug­leiðingum í Nepal.

Anna Tara Edwards fékk fíl í 12 ára afmælisgjöf.
Mynd/Aðsend

Boðs­kort í maníu

Andri og Anní fylgdu Önnu og Högna eftir um framandi frum­skóga og fjall­lendi. „Það var næstum eins og að vera boðið í maníu, öll skynjun var svona 30 prósent sterkari en venju­lega,“ segir Andri. Um­hverfið var dramatískara og ýktar upp­lifanir hafi tónað vel við um­fjöllunar­efnið.

Eftir­minni­legur göngu­túr í gegnum frum­skóginn lýsir sam­líkingu Andra á kýr­skýran hátt að hans mati. „Einn daginn vorum við á göngu sam­hliða þremur fílum á eftir Högna, sem minnir nokkuð Krist sjálfan, á­samt manni að nafni Sambó sem ætlaði að sína okkur tígris­dýrin.“ Víga­legt föru­neytið hrökk skyndi­lega við þegar skerandi óp sam­ferða­konu þeirra barst þeim til eyrna.

„Ég tek allt í einu eftir því að stígurinn sem við gengum á var al­gróin fjögurra laufa smárum,“ segir Andri.

„Við bjuggumst helst við að sjá gapandi tígris­dýr.“ Sú var ekki raunin og reyndist upp­spretta geðs­hræringarinnar hvíla undir fótum þeirra. „Ég tek allt í einu eftir því að stígurinn sem við gengum á var al­gróin fjögurra laufa smárum,“ segir Andri hlæjandi. „Þetta var í al­vöru eins og ferða­lagið til Oz.“

Fram­vinda ferðarinnar varð til þess að kvik­myndin skrifaði sig sjálf að mati Anní. „Þetta var auð­vitað bara eitt stórt á­hrifa­ríkt ævin­týri.“
Þriðji Póllinn er væntan­leg í kvik­mynda­hús þann 27. mars en sér­stök há­tíðar­sýning verður í Há­skóla­bíó 24. mars.

Andri Snær og Anní á fartinum.
Mynd/Aðsend