Lana Kolbrún Eddudóttir, fyrrverandi formaður Samtakanna 78, Ragnhildur Sverrisdóttir, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, og Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi, eru á meðal þeirra sem láta Víkverja Morgunblaðsins fá það óþvegið á Facebook fyrir skrif um AIDS sem þykja sérlega ósmekkleg og særandi.

Lana Kolbrún segir á Facebook skrif Víkverja vera „þvílíkt bylmings kjaftshögg á okkur sem lifðum AIDS tímana með allri sinni sorg!“ Hún heldur síðan áfram og segir:

„Fjölskyldur sem horfðu á eftir kornungum ástvinum í gröfina. Vinir úr hinsegin samfélaginu sem reyndu af veikum mætti að styðja og hjúkra þeim sem voru að deyja. Svo ekki sé minnst á áhugaleysi, fordóma og illsku almennings gagnvart þeim sem smituðust. Ég er miður mín.“

Víkverji ber saman varnaðarorð vegna hnattrænnar hlýnunar nú og óttann sem skók heimsbyggðina á níunda áratugnum þegar alnæmið fór sem eldur í sinu og kostaði ótal mannslíf.

Þar sem lítið er talað um AIDS í dag kemst Víkverji að þeirri niðurstöðu að í báðum tilfellum, AIDS og gróðurhúsaáhrifunum, hafi verið alið á ótta og að „kannski var málið ekki jafn alvarlegt og talið var“ þegar varað var við alnæminu á sínum tíma.

„Og svo það sé á hreinu þá hefur ekkert breyst varðandi HIV og AIDS: ef þú veikist og færð ekki lyf, þá deyrðu,“ segir Lana Kolbrún og lýkur pistli sínum með þessum orðum: „Þetta sár er óuppgert í íslenskri samtímasögu.“

Þá krefst hún þess að sá sem skrifaði Víkverja dagsins komi umsvifalaust fram undir nafni og biðjist afsökunar.

Högg í andlit hinsegin samfélagisns

Ragnhildur Sverrisdóttir, sem var um langt árabil blaðamaður á Morgunblaðinu, deilir pistli Lönu Eddu og lætur fylgja með póst sem hún sendi á Víkverjahöfund dagsins:

„Pistill þinn um alnæmi er ekkert annað en högg í andlit hinsegin samfélagsins, sem var harkalega leikið af alnæmisfaraldrinum á 9. áratug síðustu aldar. Ég ein gæti sjálfsagt talið upp tugi ungra homma, sem urðu þessum skelfilega sjúkdómi að bráð. Í mörgum tilvikum dóu þeir í felum, fjölskyldur þeirra vildu ekki viðurkenna að þeir hefðu látist úr sjúkdómnum, sem óupplýstir hræsnarar töldu sérstaka refsingu guðs fyrir líferni þeirra. Sumir dóu einir í útlöndum, fjarri ættingjum sem ekkert vildu með þá hafa.“

Ævintýraleg heimska

Halldór Auðar Svansson deilir mynd af Víkverja-pistlinum á Facebook-vegg sínum og segir skrifin „ævintýralega heimskuleg.“ Hann bendir síðan á það sem flestum þykir sjálfsagt augljóst að sjaldan er „minnst á alnæmi á Vesturlöndum nákvæmlega vegna þess að brugðist var við með öflugum fyrirbyggjandi aðgerðum.“

Meinið sé þó, sem fyrr banvænt. „Annars staðar, svo sem víða í Afríku, þar sem stjórnvöld hafa jafnvel sums staðar misst sig í að ýta undir afneitun á vísindalegum staðreyndum um alnæmi, er það ennþá mikið og banvænt vandamál.“

Halldór segir jafnframt að tilraun til þess að afneita staðreyndum um hnattræna hlýnun með slíkum samanburði hljóti að „vinna sérstök hálfvitaverðlaun“ og að vanvirðingin „í garð þeirra sem hafa unnið þrekvirki í að koma í veg fyrir alnæmisfaraldur á heimsvísu er síðan sérstök svívirða út af fyrir sig. Þetta er svona svipað og að efast um gildi slökkviliða af því það sé ekki nægilega algengt að hús brenni til grunna.“

Fáfróður apaköttur

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingar, segist í athugasemd við færslu Halldórs ekki eiga til eitt aukatekið orð. „Vélindað herpist saman, hver skrifar svona og hver hleypir þessu í gegn? Þvílík fáfræði að það nær engri átt.“

Blaðamaðurinn Kristinn Hrafnsson leggur einnig orð í belg hjá Halldóri og segir skrifin eitt það „grófasta sem ég hef séð lengi frá þessari skítlegu ritstjórn.“ Hann bendir síðan á að alnæmi er enn að drepa í þriðja heims ríkjum þar sem afneiturnarsinnar ráði ríkjum, vanþekking vaði uppi og fátækt kemur í veg fyrir kaup á lyfjum.

„Mín vegna má þessi drulluháleisti sem setur þetta á blað flokka sig með Mbeki Suður-Afríkuforseta sem afneitaði vísindakenningum um að tengsl væru á milli HIV og alnæmis og taldi bestu lækninguna vera seyði úr jurtum og hvítlauk. Hvílíkur apaköttur.“