Bandaríska söngkonan Britney Spears hefur verið fastagestur í heimspressunni síðan hún sló fyrst í gegn í september árið 1998 með laginu Hit me Baby One More Time. Eins og gengur og gerist með poppstjörnur hefur klæðaburður hennar verið milli tannanna á fólki, einnig ástarsambönd, vinasambönd, neyslumynstur , geðheilsa og holdafar.

Í áranna rás hefur æ minna farið fyrir umfjöllun um tónlist Britney Spears. Þess í stað hefur stormasamt einkalíf söngkonunnar verið í fókus. Stormurinn náði hámarki sínu með #FreeBritney-hreyfingunni, skipulögðum alþjóðlegum fjöldamótmælum sem hófust á samfélagsmiðlum.

Veikindi eða vinnuþrælkun

Mótmælin sneru í upphafi að kenningu þess efnis að sjálfræðissvipting Britney frá 2008 væri ólögmæt og í eðli sínu mannréttindabrot. Að fjölskylda söngkonunnar væri að misnota aðstöðu sína og nota hana sem eins konar vinnuþræl. Málið endaði með endurupptöku fyrir dómstólum og fór svo að Britney endurheimti sjálfræði sitt á ný í nóvember 2021.

Elstu rætur #FreeBritney-hreyfingarinnar má rekja til ársins 2007. Þá var Britney heimsfræg poppstjarna og jafnframt ung móðir tveggja sona, sem brotnaði saman undan áreiti og álagi fyrir augum heimspressunnar.

Bloggarinn Cara Cunningham deildi myndbandi þar sem hún bað fólk að „láta Britney í friði,“ á ensku: „Leave Britney Alone.“ Bónin varð að frasa og Cara Cunningham var dregin sundur og saman í háði. Ljóst er að tíðarandinn var annar og umræðan um geðheilsu og fjölmiðla á ólíkt öðrum stað en í dag. Þess ber að geta að Cunningham náði að stíga ölduna ferlinum í hag og varð gríðarlega vinsæl á samfélagsmiðlinum sáluga MySpace og líka á YouTube.

Skilnaður og sjálfræðissvipting

Britney var í upphafi frekar klassískt bandarískt ungstirni. Ímynd hennar dansaði á línunni milli jómfrúar og dræsu og hið gljáfægða plan plöturisans gekk eins og í sögu. Max Martin-smellir og verksmiðjupopp í hæsta gæðaflokki.

Britney giftist dansaranum Kevin Federline árið 2004. Ári seinna eignaðist hún eldri soninn, Sean Preston, og sama ár náði ferill hennar hámarki með Grammy-verðlaunum fyrir smellinn Toxic. Árið 2006 fæddist Jayden James og tveimur mánuðum eftir fæðingu barnsins sótti Britney um skilnað frá barnsföður sínum.

Fjölmiðlar birtu partímyndir af Britney sem tók virkan þátt í skemmtanalífinu og umgekkst samkvæmisljón á borð við Paris Hilton. Ljósmyndarar eltu hana á röndum. Árið 2007 fékk Britney aðstoð á meðferðarstofnun í tvígang. Fjölmiðlar náðu myndum af henni snoða sig inni á hárgreiðslustofu í Los Angeles. Skömmu seinna fór hún aftur í meðferð. Um svipað leyti missti Britney forræði yfir börnunum sínum tveimur. Hennar fimmta plata kom út skömmu seinna og hún flutti lagið „Gimme More“ á MTV Video Music Awards, við litla hrifningu gagnrýnenda.

Árið 2008 var Britney lögð tvisvar inn á geðdeild, og svo fór að Jamie Spears faðir hennar sótti um forræði yfir fullorðinni dóttur sinni. Hann tók yfir fjárráð dótturinnar en hvergi var gefið upp af hvaða toga veikindi hennar væru. Í desember kom platan Circus út, og ári seinna fylgdi Britney plötunni eftir á kynningarferðalagi á heimsvísu.

Framleiðni án frelsis

Á þeim þrettán árum sem hafa liðið frá sjálfræðissviptingu Britney, hefur hún sent frá sér heilar þrjár plötur. Þá stóð hún fyrir „residensíu“ í Las Vegas, fastri tónleikaröð þar sem hún tróð upp kvöld eftir kvöld. Britney tók þátt í sjónvarpsþættinum „The X-factor“ árið 2012, sem dómari. Þótti fylgjendum #FreeBritney margt benda til að hún væri fullfær um að hugsa um sjálfa sig og vel það, í ljósi fyrrgreindra vinnuafkasta.

Fylgjendur #FreeBritney hreyfingarinnar má finna um allan heim og samanstendur hópurinn ekki eingöngu af aðdáendum tónlistar Britney Spears. Nokkuð stór hluti hópsins er áhugafólk, og jafnvel fagfólk á sviði mannréttindamála. Á meðan á baráttunni stóð fóru meðlimir hópsins yfir opinber gögn sem sneru að máli Britney, ræddu við fjölmiðla og héldu opnar málstofur á netinu.

Britney vann mikið á meðan faðir hennar fór með forræðið.
Mynd/Getty Images

Ýmsar kenningar flugu um netheima um aðstæður og heilsu Britney Spears. Oftar en ekki voru þær afskrifaðar sem samsæriskenningar. Árið 2019 gerðu grínistarnir Tess Barker og Barbara Gray hlaðvarpsþátt þar sem þær krufðu Instagram-aðgang Britney, aðgang sem þykir í meira lagi sérstakur. Britney var þar alltaf inni á heimili sínu og sýndi dansspor í magabol, með farðann í misgóðu ástandi og áberandi hárlengingar. Myndböndin eru flest keimlík að efnistökum og eiga það sameiginlegt að vekja spurningar áhorfandans. Efnið gaf kenningasmiðum byr undir báða vængi og margir töldu hér um að ræða leynilegt kall á hjálp, og athugasemdir hrönnuðust inn, spurningar á borð við: „Britney er allt í lagi?“ og „Settu inn rósa-tjákn ef þú þarft hjálp.“

Boltinn fór að rúlla þegar lögfræðingur sem vann að máli Britney árið 2008 setti sig í samband við þáttastjórnendur með nafnlausri ábendingu. Það sem hafði verið samsæriskenning fram að þessu leit nú út fyrir að vera eitthvað annað og stærra.

Ábendingin innihélt meðal annars upplýsingar um að Britney hefði verið vistuð á geðdeild gegn vilja sínum auk upplýsinga um lyfjaþvinganir.

Sagan af sjálfræðisbaráttunni

Í ágúst 2020 kallaði lögmaður Britney Spears eftir því að Jamie Spears, faðir söngkonunnar yrði leystur frá stöðu sinni sem lögráðamaður dóttur sinnar. Jamie svaraði spurningum fjölmiðla um málið og sagði #FreeBritney-hreyfinguna vera brandara.

Í febrúar 2021 gaf Sky út heimildarmyndina „Framing Britney Spears“ sem olli miklu fjaðrafoki. Mál Britney var skyndilega á allra vörum og kastljósinu ekki síður beint að fólkinu í lífi Britney og helst fjölskyldu hennar.

Þann 17. júní 2021 var haft eftir Britney að hún hefði ekki hugmynd um hvort að hún myndi nokkurn tímann snúa aftur á svið.

Þá flutti hún tilfinningaþrunginn vitnisburð fyrir dómstólum þann 23. júní, þar sem hún sagði aðstæður sínar niðurlægjandi og að hún þráði að endurheimta líf sitt. Þá sagðist hún hafa verið þvinguð inn á geðdeild árið 2019, og sér hefðu verið gefin öflug geðlyf. Þá hefði hún einnig verið sett nauðug á getnaðarvörn. Henni væri bannað að hitta fólk, gifta sig, eignast börn og hún neydd í þrotlausa vinnu. Hún sagði einnig frá því á samfélagsmiðlum, að hún hefði hvorki verið með lyf eða áfengi í líkamanum þegar föður hennar var fengið forræðið, allt hafi málið frá upphafi til enda snúist um grófa misnotkun á valdi.

Britney Spears árið 1999.
Mynd/Getty

Þann 5. júlí sagði Larry Rudolf af sér sem umboðsmaður Britney, en hann hafði þá gegnt stöðunni síðan á tíunda áratugnum. Hann sagði ástæðuna meðal annars felast í því að hann hefði ekki átt samskipti við söngkonuna í tvö og hálft ár, og að hún hefði tilkynnt um ótímabundið hlé frá vinnu.

Nokkrum dögum síðar, þann 14. júlí fékk Britney í gegn beiðni um að velja eigin lögmann í fyrsta sinn. Hún grátbað dómstóla að víkja föður sínum frá sem lögráðamanni, og sömuleiðis ákæra hann fyrir að misnota aðstöðu sína.

Þann 26. júlí fór nýr lögmaður Britney fram á beiðnina með formlegum hætti og fór fram á að faðir hennar yrði settur af sem lögráðamaður söngkonunnar.

Hálfum mánuði síðar, þann 12. ágúst lýsti Jamie Spears yfir vilja til að stíga til hliðar. Hann hafði fram að þessu farið með fjárráð dótturinnar. Hann lagði fram formlega beiðni um að afsala sér forræðinu þann 7. september.

Fimm dögum síðar, þann 12. september, kynntu Britney Spears og kærasti hennar til fjögurra ára, Sam Ashgari, heiminum um trúlofun sína.

Þann 24. september kom út heimildarmyndin „Controlling Britney Spears.“ Í myndinni er því haldið fram að faðir Britney hafi fylgst með síma- og textaskilaboðum dóttur sinnar ásamt því að koma fyrir hlerunarbúnaði í svefnherbergi hennar.

Þann 29. september var Jamie Spears settur af sem forráðamaður dóttur sinnar. Þann 4. október þakkaði Britney Spears #FreeBritney-hreyfingunni fyrir stuðninginn. Þann 2. nóvember svaraði Jamie Spears spurningum dómara um það hvernig peningum söngkonunnar var varið á meðan hann fór með forræðið.

Þann 12. nóvember varð Britney Spears formlega sjálfráða á ný.

Málinu lýkur þó ekki hér.

Barnsfaðir með blóð á tönnunum

Hin frjálsa Britney hélt áfram að vekja athygli fjölmiðla, ekki síst með stöðugum myndbirtingum á Instagram síðu sinni þar sem hún kom nakin fram. Nektarmynd eftir nektarmynd, sem ekki er tekin í stúdíói með lýsingu og filterum, líkt og algengt er hjá fræga fólkinu. Þess heldur fóru tökurnar fram á heimili Britney eða á hótelherbergjum, þar sem Sam Ashgari hélt líklega á myndavélinni. Tjákn var sett fyrir helgustu staðina, eins og til þess að brjóta ekki siðareglur Instagram. Þykkur augnfarði, fyrirferðarmiklar hárlengingar og augnaráðið leitandi í myndavél sem staðsett er yfir höfuðhæð.

Fylgjendur hennar á samfélagsmiðlum virðast skiptast í tvær fylkingar. Sumir virðast styðja hana og segjast skilja þörf hennar til að njóta nýfundins frelsisins með þessum hætti. Hér sé á ferðinni fertug kona sem missti af frelsi fullorðinsáranna, kona sem hefur ekki mátt stjórna eigin samfélagsmiðlum síðustu þrettán árin, og því sé hún að „hlaupa af sér hornin.“

Aðrir, þó ekki eins háværir, spyrja hvort að mögulega sé allt í lagi með Britney. Aðrir kalla hana athyglissjúka. Einhverjir spyrja, og fara ekki fínt í það, hvort að hér séu veikindi að gera vart við sig. Kara Kennidy, blaðamaður The Spectator skrifaði grein í maí sem heitir „Is Britney Spears OK?,“ og undirtitill greinarinnar er einskonar vörn: „It isn‘t wrong to ask.“ Það sé í lagi að spyrja að því. Eins og blaðamaður sjái ástæðu til að verja sig fyrir fram.

Í gegnum öll málaferlin og opinbera baráttu söngkonunnar fyrir endurheimt sjálfræðis, átti hún í erjum við foreldra sína og systur sína, Jamie Lynn. Fjölskyldan tjáði sig við heimspressuna og Britney svaraði á samfélagsmiðlum. Erjurnar náðu hámarki í nýliðinni viku þegar þær færðust yfir á þau sambönd sem standa hjarta hennar næst.

Þann 4. september 2022 steig barnsfaðir hennar, Kevin Federline fram í viðtali við fréttaskýringaþáttinn 60 mínútur, að eigin frumkvæði, og kvaðst þurfa að segja sína hlið á málinu. Hann hélt því fram að Jamie Spears hafi bjargað lífi Britney á sínum tíma. Kevin sagði einnig að í gegnum tíðina hafi hann sett börnin í fyrsta sæti og dregið sig úr sviðsljósinu fyrir fjölskylduna, en hann á samtals sjö börn, þar af fimm með tveimur öðrum konum. Hann fór með hálft forræði yfir sonum þeirra tveimur til ársins 2019, þegar honum var veitt 70 prósenta forræði. Hann sagði að sú tilhögun hefði orðið til að beiðni sona Britney, sem hafi ekki liðið vel hjá móður sinni. Það eru engar ýkjur að segja að tónninn í viðtalinu sé svolítið yfirlætislegur og það er ljóst að Kevin álítur Britney vera manneskju sem þurfi mikla aðstoð. Þess má geta að Kevin hefur birt opinberlega gamalt myndband af Britney skamma börnin sín, myndband sem hann eyddi svo aftur. Britney sást þar ávíta synina ellefu og tólf ára gamla, fyrir að sýna henni ekki virðingu, og þá sást hún einnig skamma son sinn fyrir að fara skólaus inn í ísbúð með blóðugan fót.

Synirnir tóku upp myndböndin sjálfir og að sögn Kevin birti hann þau að þeirra undirlagi, í því skyni að sýna heiminum „hvernig Britney er.“ Þó er leitun að einhverju vafasömu í myndböndunum sjálfum. Lögfræðingur Britney sagðist vera að skoða grundvöll fyrir málshöfðun á hendur Kevin vegna birtingarinnar, og hvort að um væri að ræða netníð.

Britney og eiginmaður hennar, fyrirsætan Sam Asghari. Nokkur aldursmunur er á parinu. Britney er fædd árið 1981 og Sam árið 1994.
Fréttablaðið/Getty

Þá fór Kevin fram á hækkun framfærslu frá Britney árið 2018, en sem stendur fær Kevin 40.000 bandaríkjadali á mánuði frá Britney til framfærslu sonanna, það eru tæpar sex milljónir íslenskra króna.

Sonur Britney og Kevin, hinn fimmtán ára gamli Jayden, tjáði sig einnig í viðtalinu og sagðist þar meðal annars biðja fyrir móður sinni, „í von um að henni batni.“ Hann tók einnig upp hanskann fyrir afa sinn, Jamie Spears. Jayden útskýrði ákvörðun þeirra bræðra varðandi að mæta ekki í brúðkaup Britney og Sam Ashgari í júní síðastliðnum, og sagði að aðeins þeir bræður hefðu verið boðnir en ekki stórfjölskyldan. Jayden sagði að „að mæta þar hefði ekki getað endað farsællega.“ Hann sagði samband Britney við þá bræður vera stirt og að þeim þætti myndbirtingar móður sinnar á samfélagsmiðlum óþægilegar.

Britney brást við þessu með raddupptöku sem hún birti á Instagram síðu sinni en fjarlægði svo skömmu síðar, þar sem hún sagðist velta því fyrir sér hvers vegna synir hennar væru svo „fullir af hatri“ gagnvart móður sinni. Hún svaraði ummælum Jayden fullum hálsi og tók barnsföður sinn einnig fyrir, sagði að hann hefði ekki verið í vinnu síðustu fimmtán árin og gerði því skóna að hann og fjölskylda hans öll, lifðu á hennar tekjum. Hún sakaði Kevin um að reykja gras á hverjum degi, og það hlyti sonum hennar, unglingunum, að þykja flottur lífsstíll. Þá má einnig túlka svör hennar þannig að í ljósi þessarar afstöðu sonarins, fái bræðurnir ekkert frá henni eftir átján ára aldurinn.

Veikindi eða veruleiki poppsins

Það er ljóst að það eru margar hliðar á þessu máli. Í fyrsta lagi hafa dómstólar í Bandaríkjunum ekki talið ástæðu til að viðhalda því forræðisfyrirkomulagi sem hafði viðgengist síðustu þrettán árin. Gríðarleg pressa, bæði innan og utan Bandaríkjanna, og opinber stuðningur frá heimsþekktum persónum úr skemmtanabransanum, myndaði gríðarlega sterka öldu sem lauk með úrskurði í nóvember. Niðurstöður rannsókna heimildarmyndagerðarfólks og rannsóknarblaðamanna virtust á eina leið, að það væri ranglátt að Britney réði ekki eigin högum.

Britney hefur vakið athygli fyrir birtingu nektarmynda á samfélagsmiðlum.
Instagram/Skjáskot

Þá eru aðrar breytur sem koma til sögunnar. Ef Britney er veik eins og synir hennar og nánasta fjölskylda heldur fram, hvers vegna hefur sjúkdómurinn aldrei verið nefndur á nafn? Hvenær er óvenjuleg hegðun til marks um veikindi? Er hægt að skaða mannorðið sitt án þess að vera veikur og er veikindamerki að breyta ímynd sinni opinberlega, ef maður hefur verið heimsfræg poppstjarna síðan í barnæsku?

Britney Spears er ekki aðeins með sjálfa sig í vinnu, hún er risafyrirtæki sem fjöldi fólks hefur tekjur sínar af. Ef Britney Spears fer í verkfall missir fjöldi fólks tekjurnar. Þetta er breyta sem er ekki hægt að líta fram hjá þegar horft er til aðstæðna söngkonunnar.

Athugasemdirnar á Insta­gram-síðu Britney hafa breyst, að minnsta kosti þessar sem fá flest „læk“ og birtast því efst. Móðganir og illkvittnislegar athugasemdir, ásakanir um athyglissýki og fleira fá meira vægi en áður, nú þegar hún hefur fengið fullt forræði yfir eigin málum.

Að deila opinberlega við unglinga getur varla talist æskilegt og er síst til þess fallið að styrkja ímynd Britney. Sömuleiðis virðist hin frjálsa Britney áfram vera fangi fjölmiðlaathygli og þetta virðist barnsfaðir hennar nýta sér óspart.

Það er öruggt að storminn í lífi Britney Spears lægir ekki í bráð.