Tveir heilir dagar hafa liðið síðan skjálfti varð í skjálfta­hrinunni norður af Siglu­firði, sem mældist 2,0 eða stærri. Náttúru­vá­r­fræðingur á Veður­stofu Ís­lands í­trekar þó að hrinan sé enn í gangi og að fólk fyrir norðan eigi á­fram að vera búið undir mögu­leikann á stórum skjálfta.

Skjálfta­hrinan hefur nú staðið yfir í rúmar þrjár vikur en dregið hefur veru­lega úr virkninni síðustu daga. Skjálfti yfir 2 að stærð mældist síðast á föstu­daginn. Síðan hafa að­eins mjög smáir skjálftar mælst á svæðinu en alls hafa þeir þó verið tæp­lega 300 það sem af er helginni. Skjálfti af stærð 4,2 mældist þó síðasta miðvikudag.

Kort af jarðskjálftavirkni á landinu öllu síðustu tvo sólarhringa.
Veðurstofa Íslands

„Það er við­varandi virkni þarna. Þetta getur alveg náð sér aftur upp,“ segir náttúru­vá­r­fræðingurinn. „En við getum eigin­lega ekkert sagt til um það. Jarð­skjálfta­hrinur fjara oft út svona ró­lega og við gætum alveg verið að sjá það núna. En 300 skjálftar yfir helgi er samt tals­verð virkni.“

Hann segir þá að enn gætu komið stærri skjálftar á svæðinu. „Ég myndi alla­vega biðja fólk um að vera enn þá á tánum og til­búið í að það gæti komið stærri skjálfti aftur þarna.“

Að­spurður segir hann þá erfitt að segja til um hversu mikið virknin á svæðinu þarf að ganga niður til að hægt sé að full­yrða að hrinan sé búin. „Það er erfitt að gefa ein­hverja tölu. Það þyrftu bara að vera búnir að koma það fáir skjálftar í kannski eina eða tvær vikur að við gætum séð alveg aug­ljósa þróun í þá átt að þetta hætti. En svo veit maður aldrei hvort þær byrji aftur. Það hefur nú alveg oft verið þannig að hrinur hætti og svo bara byrja þær aftur. Þannig það er erfitt að segja til um þetta.“