Við hittum Gísla fyrir á Súfistanum í Hafnarfirði, bænum sem hann hefur haft sem sína bækistöð á Íslandi milli búsetu erlendis og langra ferðalaga. Hann er reyndar alinn upp í Kópavogi. Gísli var alltaf mjög virkur sem krakki og erfiður að eigin sögn.

Þegar Gísli var fjórtán ára gamall missti hann föður sinn, Ólaf Rafn Einarsson, úr krabbameini. Skömmu síðar féll móðurafi hans frá úr hjartasjúkdómi. Gísli segir þetta hafa verið erfiðan tíma, fyrir hann sjálfan, litla bróður og móður.

„Einhverra hluta vegna hafði þetta þó þau áhrif að ég róaðist talsvert niður. Sextán ára var ég hættur að lenda í slagsmálum og fullorðnaðist hratt,“ segir Gísli.

Þrátt fyrir að hafa verið erfiður sem krakki átti hann auðvelt með nám, sérstaklega stærðfræði enda móðir hans stærðfræðikennari sem hélt henni vel að honum. Þetta leiddi af sér áhuga á tölvum.

„Þegar veikindi pabba hófust eyddi ég miklum tíma með bróður mömmu sem hafði kynnst forritun úti í Noregi. Ellefu ára gamall var ég farinn að forrita sjálfur og fjórtán seldi ég mitt fyrsta forrit,“ segir hann. En það var forrit til að halda utan um félagatal og félagsgjöld.

Tölvuöld var varla gengin í garð í byrjun níunda áratugarins og öryggi tölvukerfa bagalegt. Þetta sást best þegar Gísli og vinur hans gátu hakkað sig inn í tölvukerfi Pósts og síma í Breiðholti.

„Vinur minn hringdi í skakkt númer og heyrði hljóð sem gat aðeins verið tölva,“ segir Gísli. „Ég átti þá 300 bita módem og gat tengst tölvunni með því að hringja með því. Við gátum séð símareikninga hjá fólki og að það var verið að fylgjast með ákveðnum númerum, sennilega lögreglan. Við gerðum ekkert við þetta en fannst þetta fyndið.“

Toppurinn á tilverunni

Eftir skólagöngu í Snælandsskóla, Menntaskólanum í Kópavogi og Háskóla Íslands tók Gísli gráðu í efnafræði og tölvunarfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Eftir nám vann Gísli í Bretlandi, Svíþjóð og á Íslandi, meðal annars hjá ljósritunarfyrirtækinu Xerox og Medtronic sem framleiða flesta gangráða og stuðtæki heims. Árið 1998 hélt hann vestur til Seattle til að vinna fyrir Microsoft.

„Á þessum tíma var það toppurinn að vinna fyrir Microsoft,“ segir Gísli en í dag þyki kannski Google eða Facebook meira spennandi.

Gísli starfaði hjá Microsoft uns hann skildi við þáverandi konu sína árið 2001 og flutti þá heim til Íslands. Rúmu ári eftir flutningana heim sannfærði hann Microsoft um að opna stöð á Íslandi þar sem hann starfaði til ársins 2010. Það mest gefandi var hins vegar að taka þátt í mannúðar- og hjálparstarfi á vegum fyrirtækisins en sá kafli í lífi Gísla á sér nokkurn aðdraganda.

Leið til að gefa til baka

Árið 1990 bauð Gísli fyrst fram krafta sína í hjálparstarfi, hjá Rauðakrosshúsinu við Tjarnargötu. Þar var þá afdrep fyrir unglinga sem áttu í vanda heima fyrir. Þegar hann sneri aftur frá háskólanáminu gekk hann svo í Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði.

„Ég fann að þetta var mín leið til þess að gefa eitthvað til baka til samfélagsins. Björgunarsveitin er líka frábær félagsskapur og á þessum tíma var hún besti staðurinn til þess að læra um útivist,“ segir Gísli um hvers vegna hann skráði sig.

Við Íslendingar státum okkur af björgunarsveitunum enda þykja þær nokkuð einstakar. Þegar Gísli starfaði hjá Microsoft í Washington-fylki fann hann hins vegar mjög sambærilegt hjálparstarf sem hafði þróast á svipaðan hátt og hér heima.

„Ég tók að mér að stýra aðgerðum frekar en að vera sjálfur að hlaupa upp um fjöll og firnindi,“ segir Gísli. Sjálfboðaliðastarfið í Seattle var mjög umfangsmikið enda um tvær og hálf milljón íbúa á svæðinu. „Einn daginn var frábært veður í Seattle og þá komu sjö útköll hvert á fætur öðru sama daginn.“

Hamfarir

Eftir flóðbylgjuna miklu í Suðaustur- Asíu árið 2004 kom sterk krafa frá starfsfólki Microsoft um að fyrirtækið legði sitt af mörkum í sambærilegum krísum. Í ljósi reynslu sinnar var Gísli tekinn inn í þetta starf og hefur frá þeim tíma tekist á við flóðbylgjur, þurrka, jarðskjálfta og faraldra.

„Ég fór því að ferðast um heiminn til að bregðast við hamförum eða til að ráðleggja ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum hvernig hægt sé að nýta tæknina að þessu leyti,“ segir Gísli. Á svipuðum tíma var Gísli orðinn stjórnandi í Íslensku alþjóðasveitinni hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og í 250 manna samhæfingarteymi hjá Sameinuðu þjóðunum.

Gísli segir miklu skipta að undirbúa sig andlega á leiðinni til lands þar sem orðið hafa miklar hamfarir. Sem dæmi nefnir hann jarðskjálftann stóra á Haítí árið 2010 en hann var þá stjórnandi í íslensku sveitinni sem mætti fyrst allra á vettvang.

20210818_gislirafn_EA_001.jpg

Gísli var í teyminu sem kom fyrst til Haítí eftir jarðskjálftann mikla árið 2010.

„Í flugvélinni ræddum við saman um hverju við mættum eiga von á og að þetta myndi sennilega hafa áhrif á okkur út lífið,“ segir Gísli. „Það sem við sáum var samt mun verra en við gátum ímyndað okkur. Fyrsta kvöldið þegar við keyrðum í gegnum höfuðborgina Port-au-Prince sáum við tugþúsundir líka og það var verið að nota vinnuvélar til að koma þeim í vörubíla.“

Bendir hann á að björgunarsveitarfólk geti vel brotnað niður í eða eftir útköll og því sé mikilvægt að huga að andlegri heilsu bæði fyrir, á meðan og eftir þau. Sem betur fer hafi mikil vinna í tengslum við áfallahjálp innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar skilað sér vel í tengslum við útkallið til Haítí.

„Fjórum mánuðum eftir skjálftann fór ég aftur til Haítí og heimsótti spítala í uppblásnu tjaldi þar sem lítil börn voru að berjast fyrir lífi sínu. Ég fór þaðan út hágrátandi,“ segir hann. „Allir fá þessar tilfinningar og maður verður að geta talað um þær.“

Ættleiddi fullorðnar dæturnar

Frá 2010 starfaði Gísli fyrir regnhlífarsamtök 60 stærstu hjálparsamtaka heims við að samhæfa allt hjálparstarf á þeirra vegum. Það voru því oft stutt stopp heima og oft sem hann þurfti að hoppa upp í næstu flugvél eftir að hamfarir dundu yfir á fjarlægum stað. Eftir ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku árin 2014 til 2015 og sterkan jarðskjálfta í Nepal skömmu síðar segist Gísli hafa brunnið út og ákvað að kúpla sig út úr hjálparstarfinu um stund. Var það þá farið að taka of mikinn toll af fjölskyldulífinu. En eftir um tveggja ára hlé snéri hann sér aftur að hjálparstarfinu og vann við það þar til hann flutti heim til Íslands fyrr á árinu.

Gísli kynntist eiginkonu sinni, Sonju Pétursdóttur, á einkamal.‌is, árið 2002. Hann átti tvo stráka úr fyrra hjónabandi og hún þrjár stelpur. Faðir þeirra, sem var Bandaríkjamaður, var látinn og Gísli gekk þeim í föðurstað. Fyrir skemmstu, átján árum síðar, ættleiddi Gísli þær fullorðnar.

„Fyrir nokkrum árum spurðu þær mig hvort ég vildi formlega verða pabbi þeirra og ein þeirra hafði meira að segja flúrað á sig orðið Gísladóttir,“ segir Gísli og brosir breitt. „Ég sagði af sjálfsögðu já. Við ákváðum að bíða með þetta um stund, en um síðustu jól komu þær með eyðublöðin til mín og ég skrifaði undir á staðnum.“

Úr einni krísu í aðra

Gísli er í framboði fyrir Pírata í alþingiskosningunum í september en hann hefur aldrei tekið þátt í pólitísku starfi áður. Þegar hann ákvað að fara í framboð kynnti hann sér vel þá flokka sem starfa á Íslandi og fannst hann eiga mesta samleið með því fólki sem starfar innan Pírata.

„Ég held að ég hafi reynslu sem geti nýst í því þjóðfélagsástandi sem nú er í gangi. Við erum að koma úr krísu faraldursins og að ganga inn í aðra sem eru loftslagsmálin,“ segir Gísli. „Þar höfum við stungið hausnum í sandinn í stað þess að taka erfiðar ákvarðanir. Til þess að takast á við þessi erfiðu verkefni þurfum við breiða samvinnu innan Alþingis og þjóðfélagsins í heild og þar tel ég mig geta nýtt áralanga reynslu mína í að fá ólíka aðila víða um heim til þess að vinna betur saman.“

Það sem Gísli brennur hvað mest fyrir er hins vegar að takast á við fátækt á Íslandi og minnist þess að þegar hann sat í stjórn hjá Rauða krossinum hafi verið settur á fót sárafátæktarsjóður þar sem komu margar umsóknir frá fólki sem bjó við mjög erfiða stöðu fjárhagslega. „Það opnaði augu mín að sjá hversu mikil fátækt er á þessu ríka landi og ég skammast mín fyrir það.“