Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, er sammála Indriða H. Þorlákssyni, fyrrverandi skattstjóra, um að íslenska ríkið verði af 40-60 milljörðum miðað við réttláta skattheimtu greinarinnar nú þegar afkoman er í hæstu hæðum. Útgerðin greiddi 4,8 milljarða króna árið 2020 í veiðigjöld.

Þórólfur vitnar í yfirlit Hagstofunnar um afkomu veiða og vinnslu, þar sem komi fram að hreinn hagnaður veiða og vinnslu hafi verið um 50 milljarðar árið 2020. Reiknaður kostnaður við að fjármagna fjárfestingar í skipum og búnaði hafi verið talinn samtals 28 milljarðar.

„Hreinn hagnaður án veiðigjalds var líklega um 55 milljarðar á árinu 2020,“ segir Þórólfur.

Af gögnum Hagstofu ræður Þórólfur að afkoma fyrirtækjanna hafi batnað um 40-60 prósent á árinu 2021. „Við getum giskað á að hreinn hagnaður veiða og vinnslu hafi verið einhvers staðar í kringum 75-90 milljarða á síðasta ári áður en veiðigjaldið var greitt.“

Spurður hve háa fjárhæð væri réttmætt að greiða af slíkum hagnaði segir Þórólfur eðlilegast að líta til þess hvernig Norðmenn skattleggja tekjur í olíuvinnslu í Norðursjónum. Tekjuskattur olíuvinnslufyrirtækja sé 78%, auk þess sem norska ríkið taki eignarhlut í öllum olíulindum. „Þessar tekjur eru lagðar í olíusjóðinn, sem er orðinn einn stærsti fjárfestingarsjóður í heimi.“

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Fréttablaðið/Auðunn

Danir horfi öfundaraugum til Noregs

Danir hafa að sögn Þórólfs lægri skattlagningarprósentu á Mærsk í Norðursjónum, en hann segir Dani horfa öfundaraugum til Noregs. „Eigum við að segja að það væri eðlilegt með hliðsjón af reynslu Norðmanna að hafa skattinn 75% af hreinum hagnaði?“

Mat prófessorsins er að ef íslenskur sjávarútvegur væri undir svipuðum skattlagningarreglum og olíuiðnaður í Noregi væri veiðigjaldið um 55-60 milljarðar fyrir árið 2021, sem er á sama rófi og Indriði H. Þorláksson nefndi á forsíðu Fréttablaðsins í gær.

„Alþjóðlegu olíufyrirtækin geta vel lifað við þessa skattlagningu í Norðursjónum, þau vilja leita meira en norska Stórþingið er tilbúið að leyfa þeim, þannig að ekki dregur þessi skattlagning úr framkvæmdaákefð alþjóðlegu olíufyrirtækjanna. Íslenskir útgerðarmenn eru ekkert ólíkir olíufjárfestum,“ segir Þórólfur.

Í nóvember árið 2019 kom fram í fjölmiðlum að Þórólfur hefði misst verkefni vegna þess að útgerðarmenn lögðust gegn þátttöku hans. Þórólfi hafði verið boðið að taka þátt í úttekt um sjálf­bærni ýsu og ufsa við Ísland og játti því. Kjarninn sagði frá því að síðar hefði Þórólfi borist skeyti frá fyr­ir­tæk­inu þar sem kom fram að hags­muna­að­il­arn­ir, tengdir sjáv­ar­út­vegi, hefðu ákveðið að hann ætti ekki að vera hluti af teym­inu sem ynni úttekt­ina.

Í des­em­ber 2009 var skip­uð eft­ir­lits­nefnd um aðgerðir í þágu ein­stak­linga, heim­ila og fyr­ir­tækja vegna hruns­ins. Í nefnd­ina voru skip­aðir þrír ein­stak­ling­ar: Þórólf­ur, María Thjell, þá for­stöðu­maður Laga­stofn­unar Háskóla Íslands, og Sig­ríður Ármanns­dótt­ir, lög­giltur end­ur­skoð­and­i. Í mars 2010 barst Maríu Thjell, for­manni nefnd­ar­inn­ar, tölvu­póstur frá Frið­riki J. Arn­gríms­syni, sem þá var fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ), sam­taka sem í dag heita Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi. Í tölvu­póst­inum sagði Frið­rik, eftir því sem fram kom í Kjarnanum:

„Við mig hafði sam­band útgerð­ar­maður sem hlýddi á erindi þitt í morg­un­. Honum til mik­illar skelf­ingar þá lítur svo út að Þórólfur Matth­í­as­son muni hafa aðgang að öllum hans málum í bönk­um. Það vill hann ekki að ger­ist.“