Friðrik Atli Guðmundsson, ábyrgð­ar­maður vef­síð­unnar um stofnun nýs flugfélags, segist ekki hafa neinar áhyggjur af rannsókn lögreglu og segir málið hlægilegt. Hann segir vefsíðuna hluthafi.com ekki hafa verið tilbúna þegar umræðan fór af stað síðustu helgi.

„Strax á laugardag voru komin gífurleg viðbrögð, fjölmiðlar komnir í málið, netlögreglan og fjármálaeftirlitið og allt mögulegt.“

Heimasíðan hluthafi.com hefur verið í mikilli umfjöllun hjá fjölmiðlum síðustu daga, en á vefsíðunni gefst almenningi kostur á að leggja fram loforð um hlutafé í nýju flugfélagi. „Við teljum að ef við náum að safna minnst 10-20 þúsund hluthöfum þá sé best að stofna einkahlutafélag, sem myndi fjárfesta í Wow air eða nýju lággjalda flugfélagi,“ segir á vefsíðunni.

„Við vorum að vinna að síðunni á laugardaginn í lokuðum hópi. Hún var alls ekki tilbúin en einhverra hluta vegna fór hún í fjölföldun og fór af stað áður en það var búið að klára síðuna. Þetta átti ekki að vera tilbúið fyrr en um páskana.“

Friðrik segir mikið vatn hafa runnið til sjávar en segir síðustu daga hafa verið martröð fyrir hópinn bak við vefsíðuna.

„Strax á laugardag voru komin gífurleg viðbrögð, fjölmiðlar komnir í málið, netlögreglan og fjármálaeftirlitið og allt mögulegt. Við sem ætluðum að fara í frí, lentum í martröð. Það er búið að fara illa með okkur.“

Hann segir málið hafa byrjað með klaufaskap og að hann hafi misst stjórn á umræðunni á netinu.

„Ef þú kemur nálægt netinu þá hefur þú ekki stjórn á þessu. Þarna voru komnar upp efasemdir og leiðindi, við vorum kallaðir glæpamenn.“

Fjármálaeftirlitið og netafbrotadeild lögreglu komin í málið

Fjármálaeftirlitið krafðist þess að vefnum hluthafi.com væri lokað í kjölfar athugunar þeirra á hlutafjárútboði sem auglýst var á vefsíðunni. Fjármálaeftirlitið taldi þá ekki fara eftir lögum verðbréfaviðskipta. Forsvarsmenn söfnunarinnar breyttu þá fyrirkomulaginu úr almennu útboði verðbréfa yfir í hlutaskírteini í einkafélagi sem fellur ekki undir sömu lög.

Netafbrotadeild lögreglunnar er komin í málið og er vefsíðan í skoðun hjá þeim. Fréttablaðið hafði samband við tölvurannsóknadeild lögreglu sem sögðust ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu.

„Þessi síða er í skoðun hjá okkur, á meðan svo er munum við ekki gefa neinar yfirlýsingar vegna þessa.“ segir Steinarr Kristján Ómarsson lögreglufulltrúi í samtali við Fréttablaðið.