Íslensk stjórnvöld og Háskóli Íslands buðu ekki fyrrverandi utanríkisráðherra, Jóni Baldvini Hannibalssyni, við skipulagningu hátíðarsamkomu sem fram fer í vikunni með öllum forsetum Eystrasaltsríkjanna um sjálfstæði þjóðanna þriggja. Þetta segir fyrrum samflokksmaður Jóns Baldvins.

Háskóli Íslands og forsetaem­bættið boða til fundarins í Háskólabíói næsta föstudag til að fagna þremur áratugum af stjórnmálasambandi „eftir að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna á ný sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens,“ eins og segir í tilkynningu.

Jón Baldvin á helst heiðurinn af stuðningnum en Sighvatur Björgvinsson, fyrrum ráðherra og samflokksmaður Jóns Baldvins, segir að á mánudag hafi hann uppgötvað að Jóni Baldvini var ekki boðið til hátíðarinnar.

„Þeir sem hafa undirbúið fundinn hafa vitandi vits haldið Jóni Baldvini frá,“ segir Sighvatur.

Eftir að Sighvatur gerði athugasemd hjá forsetaembættinu fékk Jón Baldvin boðsbréf, aðeins fjórum dögum fyrir viðburðinn. Ólíðandi er, að sögn Sighvats, að íslensk stjórnvöld komi þannig fram við mann sem hafi verið sýknaður fyrir dómstólum af þungum sökum.

„Honum er útskúfað frá viðburði um sjálfstæði ríkja sem hann átti stærstan persónulegan þátt í að fengu sjálfstæði. Ríkin sem eiga þarna fulltrúa eru margbúin að veita Jóni æðstu heiðursmerki."

Jón Baldvin staðfestir að hafa ekki vitað af þinginu fyrr en hann fékk boðsbréf í tölvupósti seint í fyrradag. Þá hafi honum verið boðið að hlýða á fyrirlestur forseta Íslands og hinna forsetanna þriggja frá Eystrasaltsríkjum, en þar sem hann haldi til á Spáni hafi hann ekki getað þegið boðið með svo skömmum fyrirvara.

„Ég skil ekki af hverju menn eru svo lítilsigldir," segir Jón Baldvin.

Hann bendir á að HÍ sem standi að viðburðinum í Háskólabíói sé sami skóli og hafi sett hann í starfsbann árið 2015, svipt hann kennslu.

„Ég virðist vera í starfs- og fram­komubanni.“